föstudagur, desember 06, 2002

Æh, ég slysaðist til að lesa minningargreinar um mæðgurnar sem dóu í bílslysinu í Morgunblaðinu og fór að skæla. Ætti að halda mig alveg frá slíku ég er svo ógurlega viðkvæm að því er virðist. Pabbi talar stundum um að hann sé orðinn svo meir með árunum. Hann tárast nú yfir einhverju sem honum hefði ekki hreyft við honum áður. Heyrið þið það strákar mínir sem reynið að vera harðir.

Einn nágranni minn hefur tekið ástfóstri við upplýst plastjóladrasl. Hnéhái plastsnjókarlinn í garðinum var ekki nóg heldur þurfti að hengja litlar, lýsandi plastfígúrur meðfram öllu þakskegginu. Þetta þykir mér afskaplega hallærislegt skraut og fjarri því að vera jólalegt. Þess vegna mun ég forðast aðventubíltúra til Njarðvíkur, en mamma fullyrðir að þar búi neon-plastjólafjölskylda í hverjum húsagarði ásamt heilu hreindýrahjörðunum. Sjálfur bæjarstjórinn Árni hvetur nú ókunnuga að berja skranið stórkostlega augum. Það ætti að binda þetta lið niður með blikkandi diskó-jólaseríu og láta þau sitja í ofskreyttu herbergi í heilt ár og sjá hvort þau fá ekki leið á blessuðum látunum.

Þá kýs ég frekar látlausari jólaskreytingar. Eða jólaskreytingus modicus eins og Quintus Horatius Flaccus myndi segja.

Engin ummæli: