laugardagur, apríl 05, 2003

Undanfarna klukkustund hef ég verið að kenna Önna á píanó. Hann er ástríðufullur nemandi og hefur "Góða mamma" nú þegar nokkurn veginn á valdi sínu. Helstu erfiðleikar hans liggja í fingrasetningunni og tilhneigingunni til að líta á nótnaborðið sem óvin. Takmark hans er að ná tökum á laginu sem allir kunna en heitir ekki neitt og hljómar einhvern veginn svona: "babbarabba, babbarabba, babbarabba, babbarabba - dududuu, dudududududu dududu, dudududududu duu du, dududududu, du dudu dudu dududu babbarabba, babbarabba, babbarabba, babbarabba..." Það verður ekki annað sagt en að sé mjög duglegur, þó hann neiti stundum að hlusta á kennslu mína, en saki mig um leið um skort á stuðningi. Ég hef skemmt mér vel.

Ég vil þakka öllum sem köstuðu á mig afmæliskveðjum í gær. Mamma gerði handa mér heitt súkkulaði og svo fínan morgunmat að ég varð að sleppa fyrstu tveimur tímunum í skólanum. Takk mamma. Amma hringdi í mig í frönskutíma til að tilkynna pönnukökubakstur og svo vildi hún endilega spjalla. Takk amma. Hanna Rut keypti sér 2 gullfiska og skírði kvenkynið Unu í höfuðið á mér en karlkynið Patta í höfuðið á Önundi. Takk Hanna. Anna gaf mér Dýrin í Hálsaskógi - láttekkieinsogðúsértekkiðanna og bíómiða frá 26.des.´94 þegar við fórum saman á Lion King. Æskudellur okkar í hnotskurn, takk Anna. Svo á Önni eftir að gefa mér gjafirnar sínar því við höfum barasta ekki haft tíma til þess. Og afmælisgjöfin frá ma&pa týndist óvart í Borgarfirði, en hún skilar sér. Svo pakkavælið mitt hefur greinilega virkað. Tók alla kalt á sálfræðinni bara.

Ég hélt ekkert upp á afmælið, eins og alltaf. Í þetta skiptið gat ég þó notað Morfís sem afsökun. Keppnin var nokkuð góð og hann Jói okkar allra varð ræðumaður Íslands en ekki Breki haha mikið gleður það mig. Ég vona að ég hafi sloppið sæmilega frá hlutverki mínu sem kúguð írönsk kona í kufli. Mér skilst að munur á liðunum hafi verið 8 stig að refsistigum dregnum frá, svo þetta var mjög tæpt. Óskandi væri að MR-ingar ættu nú titilinn Morfís meistarar en eins og Siggi inspó sagði þá getum við víst ekki unnið allt alltaf. Í þetta skiptið urðum verðum við bara að sætta okkur við að dómararnir voru hnakkar.

Engin ummæli: