föstudagur, maí 09, 2003

Kosningar

Ég vona að fátækir námsmenn hafi nýtt sér til hins ýtrasta þær ókeypis matvörur sem stjórnmálaflokkarnir hafa boðið upp á á kosningaskrifstofum sínum. Framsóknarfrostpinnar, Samfylkingarkökur og Sjálfstæðiskaffi er kærkomið prófasnarl fyrir sveitta menntskælinga, en nú er þessu víst að ljúka. Ég hlakka samt mikið til morgundagsins, þetta verður skemmtilegt. Ég hef haldið mig frá pólitíkinni á þessari síðu en áhugasamir lesendur mega vita að ég hef verið á milli tveggja flokka, síðan milli þess fyrri og annars flokks og svo aftur milli hinna fyrri tveggja. Núna hef ég hinsvegar gert upp hug minn og endaði á byrjunarreit, þar sem ég hef þrátt fyrir allt staðið undanfarin tvö ár eða svo.

Meðal glansandi kosningaruslpósts barst inn um mína bréfalúgu, eins og margra annarra, lítið box með hvítum töflum. Sem ég japlaði á þeim velti ég því fyrir mér hvort margar aðrar þjóðir en Íslendingar myndu umhugsunarlaust innibyrða hvítar töflur sem þeim bærust í pósti, án nokkurrar innihaldslýsingar. Líklegast ekki. Við erum svo saklaus og sæt og tortryggjum ekki Framsóknarmintur frekar en hvað annað.

Engin ummæli: