sunnudagur, maí 11, 2003

Stúdentspróf í stærðfræði

Í tilefni af þessum tímamótum klukkan 9:00 í fyrramálið ætla ég að rifja upp þær ástæður sem Sigríður Jóhannsdóttir gaf okkur á fornmáladeild fyrir því að við séum að læra þessa stærðfræði. Þ.e.a.s ekki stærðfræði yfir höfuð, heldur þá tegund stærðfræði sem máladeildinni er enn skammtað á þriðja ári, lengst allra annarra menntaskóla. Ég og við öll í bekknum gerum okkur grein fyrir að Sigga Jó er ekki besta manneskjan til að rökræða þetta við, en svörin sem hún gaf okkur eru of áhugaverð til að gleyma þeim:

1. Til að fá innsýn í það sem stærðfræðideildin er að gera
2. Þetta er hagnýtur grunnur fyrir eðlis-og efnafræði.
3. Ef börnin okkar fara á stærðfræðideild eigum við erfiðara með að skilja það sem þau eru að gera ef við lærum þetta ekki.
4. Án þessarar kunnáttu getur verið erfitt að fylgjast með og skilja fréttir í fjölmiðlum.

Nú. Þetta finnst mér vera dálítið í stíl við þann stærðfræðihroka sem er ríkjandi í Menntaskólanum og jafnvel víðar. Þegar ég sótti um máladeild gerði ég það ekki vegna þess að ég væri tossi eða vildi komast auðveldlega út úr þessu, heldur vegna þess að þar liggja mitt áhugasvið og geta. Viðhorfið gagnvart okkur máladeildarlúserunum kemur hinsvegar best fram í þessu samtali sem Atli Freyr bekkjarbróðir átti við samnemanda sinn:

Samnemandi: Bíddu ert þú ekki gaurinn sem fékk 10 eða eitthvað öllum samræmdu prófunum.
Atli Freyr: Jújú
Samnemandi: Hvað ertu þá að gera á máladeild?

Og Atli er ekki sá eini. Ég get samþykkt almennan MR-hroka, en mér er illa við of mikinn hroka milli deilda innan skólans. Við Sigríði hefði ég þetta að segja ef ég óttaðist ekki að græta hana:

A Mig vantar enga innsýn í veröld stærðfræðideildar frekar en þau í latínuna
B Hagnýtur grunnur já, en ekki nóg til að komast inn í slíkar greinar í háskóla, auk þess sem afar litlar líkur eru á að ég stefni þangað eftir 4 ára málabrautarnám.
C Ef barn verkfræðings fer á máladeild hefur hann ekki sérlega mikla innsýn inn í hans latínu-og málvísindanám, sem gerir hann þó ekki að verri uppalanda.
D Vanþekking mín á tegrun hefur ekki háð mér hingað til yfir kvöldfréttunum, né háð ömmu og afa, né heldur þeim fréttamönnum sem útskrifuðust af máladeild.

Mín ósk er að sjá stærðfræði máladeilda endurskipulagða með hliðsjón af því hvað gagnast okkur, þ.e. hvað við tökum okkur fyrir hendur eftir stúdent. Staðreyndin er sú að við tökum fleiri einingar en námskráin krefst en samt sem áður of fáar til að komast inn í meira að segja viðskiptafræði. Snæbjörn talar oft um að okkur ætti að vera kennd meiri tölfræði, þar sem hún er t.d. stór hluti af sagn-og stjórnmálafræðinámi í Háskólanum, sem máladeildarnemar sækja oft í. Auk þess ætti stúdentsprófið að vera tekið í 4.bekk en í stað stærðfræðinnar bætt inn í t.d. meiri íslenskukennslu eða helst meiri sögu, til þess að við fáum meira af því sem við sækjumst eftir umfram stærðfræðideildirnar.

Ég hef lokið máli mínu.

Engin ummæli: