laugardagur, janúar 17, 2004

Pöpullinn brýst inn í kúltúrinn

Áðan fór ég með mömmu, ömmu, yngri systkinum mínum og fjölskylduvinkonu í Kolaportið vegna þess að við vorum búin með harðfiskinn okkar. Þar fundum við meiri harðfisk og einnig laumaði amma á sig úldnum hákarli. Á þessu gæddum við okkur í bílnum þegar mamma byrjaði á ræðunni um að við ættum nú að fara oftar á söfn og menningarviðburði. T.d. á sýningu Ólafs Elíasarsonar í Listasafni Reykjavíkur** Þegar við komum á staðinn var þar stanslaus straumur af fólki og í dyrunum mættum við Ólafi Ragnari Grímssyni. Mér sýndist að þetta hlyti eiginlega að vera opnunardagur og eflaust boðssýning. Mamma sagði hinsvegar að það skipti engu máli, við skyldum á þessa sýningu og ekkert með það. Svo dreifði hún tyggjói á línuna svo við önguðum minna af harðfiski. Skemmst er frá því að segja að þarna voru staddar allar glansmyndir Íslands. Þegar við höfðum gengið góðan hring spurði amma hvort verið væri að hafa okkur að fíflum, henni leist ekki betur en svo á sýninguna. Ég rétti henni kampavínsglas til að kæfa hákarlslyktina af henni og brosti kurteisislega til Björgólfs eldri. Mér þótti þetta alltsaman afskaplega fyndið, en enginn gerði athugasemd við veru okkar þarna svo ætli það sé ekki bara ég sem er of snobbuð til að geta litið á fjölskylduna mína sem "fínt fólk".

**Sló fyrst óvart inn "Lostasafni Reykjavíkur". Áhugavert.

Beygingarmynd dagsins: Gruggugu

Engin ummæli: