fimmtudagur, apríl 01, 2004

Af hægðum

Ungur drengur stundar nám fjarri heimili sínu, við 3.bekk Menntaskólans. Eins og svo mörgum er honum afar illa við að hægja sér innan veggja skólans, sem er erfitt þegar dvelja þarf daglangt í svo fjarlægu póstnúmeri. Fljótlega byrjaði hann að nýta sér salernisaðstöðuna í Ráðhúsi Reykjavíkur, að ráði eldri nemanda, en var samt sannfærður um að til væri betri lausn. Um miðjan vetur uppgötvaði hann tannlæknastofu nokkra, nær skólanum en ráðhúsið, þar sem finna má hið þokkalegasta klósett í rólegu umhverfi frammi á stigagangi. Síðan þá hefur hann lagt leið sína á þessa ónefndu tannlæknastofu til að tæma og hefur jafnan fyrir sið að krafsa lítið strik í gluggakistuna til að hafa tölu á klósettferðunum. Þetta fyrirkomulag hentaði honum ágætlega, þar til í þessari viku að dró til tíðinda. Sem hann sat á postulíninu og krafsaði fjórða strikið í gluggakistunna, heyrði hann umgang, því næst píp og svo var hurð skellt. Tannlæknirinn var sem sagt farin, stofan læst og kveikt á þjófavarnarkerfinu. Og drengurinn sat á klósettinu.

Hvað átti hann að gera? Tannlæknastofuklósettdraumurinn hafði skyndilega breyst í martröð og drengurinn ungi átti yfir höfði sér að verða úthrópaður glæpamaður. Hann var heltekinn ótta og ráðaleysi. Hægðalosunin ljúfa sem áður hafði veitt honum svo mikla ánægju og slökun fyllti hann nú viðbjóði. Hann fyrirleit þessar frumstæðu þarfir sem nú höfðu í einni svipan bundið enda á framtíðarvonir hans. Hann sat og íhugaði hvort hentugra væri að drekkja sér í klósettskálinni eða vatnskassanum þegar heyrðist til mannaferða. Hurðin var opnuð, kerfið tekið af og gengið upp stigann. Svo virtist sem tannlæknirinn hefði gleymt einhverju. Hjarta drengsins unga tók vonglaðan kipp. Hann dreif sig út af klósetti örlaganna og forðaði sér í flýti sem lengst frá tannlæknastofunni. Óvíst er hvort strikunum í gluggakistunni muni fjölga í bráð.

Engin ummæli: