þriðjudagur, apríl 20, 2004

Metróseksjúal

Nú er ég klædd karlmannsskyrtu, með yfirvaraskegg og hárið falið undir sixpensara. Ég held ég hafi bara gott af því að tóna aðeins niður kvenmanninn í mér, brjóstin á mér hafa verið mjög óstýrilát í allan dag og sprengt skyrtuna utan af sér hvað eftir annað.

Rektorsáminning

Einhverjir muna kannski eftir því þegar ég birti hérna staðlaðan lista yfir hvað nauðsynlegt er að gera fyrir útskrift í MR. Þá kom fram að ég ætti aðeins rektorsáminninguna eftir, en ég hef aldrei stefnt neitt sérstaklega á hana. Í dag kom hinsvegar fram hugmynd sem gæti mögulega leitt til þess að þessi liður listans gengi eftir að einhverju leyti. Bekkurinn er nefnilega búinn að föndra nokkra rauða fána með merki hamars og sigðar, til að veifa á morgun máli okkar til stuðnings. Atli stakk svo upp á við myndum draga einn slíkan fána að húni á þaki Menntaskólans í Reykjavík. Þetta þykir mér skemmtileg hugmynd, en veit ekki hversu vel væri almennt tekið í hana. Því miður er hún illframkvæmanleg, þar sem eina aðgengið að fánastönginni er frá háaloftinu, sem er lokað nemendum. Auk þess gæti þetta spillt hinu góða sambandi milli okkar Hannesar Portners. Það er spurning hvort ég sé tilbúin í svo stóra fórn.

Engin ummæli: