fimmtudagur, júlí 15, 2004

Mamma borgar

Þetta barnalag var mér gleymt þar til ég heyrði það í útvarpinu áðan og þá áttaði ég mig á að líklegast hef ég alla tíð misskilið plottið í textanum. Stína fer í búðina, brosir blítt til kaupmannsins og kaupir rautt klæði. Í lok lagsins segir:

Hann brosandi fór og klippti klæðið.
“Hvað kostar það?” spurði Stína.
“Einn koss” hann svaraði, “kostar klæðið
í kjól á brúðuna þína.”

Í búðinni glumdi við gleðihlátur,
er glaðlega svaraði Stína:
“Hún mamma kemur í bæinn bráðum
og borgar skuldina mína.”


Ég skildi þetta alltaf þannig að kaupmaðurinn girntist koss frá stúlkunni þar sem hún var svo ung og fögur, en brandarinn væri sá að mamman ætlaði í raun að borga, en hún væri algjör herfa og kaupmaðurinn hefði þannig komið sér í vandræði. Þetta fannst mér liggja beint við þegar ég var lítil, en þegar ég heyrði lagið áðan sá ég að þetta getur varla verið rétt eða hvað, því Stína litla er ekki nema 5 ára eða svo. Varla væri viðeigandi að semja hugljúft lag um miðaldra kaupmann sem gerði sér dælt við 5 ára telpu. En hver er þá pælingin með þessu lagi? Er Stína að reyna að koma mömmunni og kaupmanninum saman? Var Stína hrædd við kaupmanninn og vildi koma sér úr þessum óþægilegu aðstæðum? Átti Stína engan pabba, fannst henni bara eðlilegt að mamma hennar myndi kyssa einhvern óprúttinn verslunareiganda úti í bæ? Afhverju var Stína annars ein í bænum, verandi svona lítil, hefði mamman ekki átt að vera með henni? Var mamma hennar kannski upp fyrir haus í ástandinu? Ég skil ekki þetta lag.

Engin ummæli: