miðvikudagur, september 01, 2004

Kæra dagbók

Í 10 ára bekk Varmársskóla vorum við skikkuð til að skrifa dagbók í skólanum, líklegast til að þjálfa ritun og sjálfstæða hugsun...eða eitthvað. Ég var allavega að finna mína dagbók og mér finnst hún nógu fyndin til að birta nokkra kafla úr henni. Hafa skal í huga að ég var 9 ára þegar þetta var skrifað.

----------------------------------------

Föstud.15 - sunnudagur 17.sept. ´95

Á laugardaginn fórum við í bíó á hundalíf. Það var rosalega gaman. Svo var pizza í kvöldmat, viðbjóðslega góð! Á sunnudagsmorgni fengum við pizzu í morgunmat! Svo fór ég til Önnu og við fórum í bíó. Aftur! Um kvöldið fengum við risastóran ís. Mjööög góðan! Mér varð samt hálfóglatt þegar við fórum í hlaupaleiki um kvöldið.

Fimmtud.21.sept. ´95

Fimmtudaginn 21.sept fór ég í heimspekiskólann! Það var rroosalega gaman. Æði! Við töluðum um margt; t.d. hverjir erum við? og; er jörðin lifandi? og ; er eitthvað á milli dauðans og lífsins? og margt fleira. Ég var eina stelpan í hópnum, en það var allt í lagi. Þessir strákar voru líka miklu skemmtilegri og gáfaðari en strákbjánarnir í bekknum mínum. Nema kannski Bragi. Þessir þorðu sko að rökræða málin. Svo fór ég til Ásgeirs í afmæli. Það var mjög gaman. Ég át svo mikið af pizzu að mér varð illt.

Laugard.30.sept.-sunnud.1 okt. ´95

Ég var hjá Önnu um helgina. Á laugard.var pizza og ís. Já og negrakossar. Svo fórum við í kínverskt box og hástökk. Svo sváfum við inni í stofu. Morguninn eftir fórum við upp á Reykjalund að heimsækja afa þeirra. Það var mjög gaman. Við fórum í þrekhjól, hjólastól, lyftulistir og margt fleira. Svo reyndum við að brjóta upp lás á hliði á leikskóla og fórum í hjólatúr.

Fimmtud.5.okt.´95

Hæ. Á fimmtud.er píanótími og ég fékk tvö ný skemmtileg lög: Indíánasöng og petalalag. Svo fór ég í heimsspekiskólann. Mjög gaman. Ég lagði fram eina spurningu og henni var vel tekið.

Fimmtud.12.okt.´95

Á þessum dögum fer ég í píanó. Nú skilaði ég lögunum sem ég var að æfa og allt var gott og fínt. Enn...öllu góðu fylgir eitthvað illt og nú er ég með rosalega erfitt lag. Ég fékk níu í stafsetningu og var þar af leiðandi langhæst með 2 villur þó ég sé yngst í bekknum. Svo fór ég í heimspekiskólann. Það skemmtilegasta var að pabbi kom heim um kvöldið og svaf í hvíta sófanum. Svo fékk ég eitt bréf frá leynivininum en því miður var það svo illa skrifað að ég skyldi ekki hvað stóð í því!

31.ókt.Miðvikud. ´95

Nokkuð hræðilegt hefur gerst: Fyrir nokkrum dögum gekk rosalegt óveður yfir landið. Daginn eftir var kominn snjór. Þann dag féll snjóflóð á Flateyri. Í snjóflóðinu lentu rúmlega 40 manns. 20 létust, þar á meðal amma og afi Ragnheiðar sem er með mér í djassballet og þrír litlir krakkar. Stelpa jafngömul mér þurfti að bíða í níu tíma í snjónum, hún dó ekki. En systir hennar dó. Þegar allir voru fundnir hófst söfnunin Samhugur í verki. Við gáfum tuttugu þúsund.

2.nóv.´95

Í gær var bekkjarkvöld kl.20:00 og ég spilaði félagsvist og fékk skammarverðlaunin sem voru endurunnin önd eins og Bragi kallaði það.

Þriðjudagur 12.desember ´95

Tólf dagar til jóla! Stekkjastaur kom í gær og gaf krökkunum tréliti í skóinn. Ég er samt hætt að setja skóinn út í glugga. Ég veit að jólasveinninn er ekki til.

-------------------------------------------


Með þessari færslu hef ég gefist visst færi á mér í trausti á lesendur mína. Ekki nota þetta gegn mér.

Engin ummæli: