mánudagur, september 06, 2004

Mogginn

Þótt margt misjafnt sé um Morgunblaðið að segja má þó telja því til tekna hversu gott málfarið þar er yfirleitt, sérstaklega í samanburði við önnur dagblöð. Ég var samt ekki sátt við blaðið síðasta laugardag, en þegar ég hraðlas í gegnum það rakst ég á tvær leiðinlegar málfarsvillur, að mínu mati. Annars vegar var það í menningardálkinum aftarlega í blaðinu, þar sem stóð stórum stöfum í fyrirsögninni orðskrípið "dáldið". Í Viðhorfsdálkinum í opnu blaðsins mátti svo lesa um svokallað "gannislagi" sem bæði var minnst á í fyrirsögn og oft í greininni sjálfri. Í því tilfelli var ekki alveg ljóst hvort penninn skrifaði framburðinn á orðinu með vitund, eða hvort viðkomandi gerði sér ekki grein fyrir hvernig þetta orð er samsett. Fyrra tilfellið er eflaust gert með vitund, en mér finnst samt leiðinlegt að sjá það í Morgunblaðinu því að mínu mati er mikilvægt að gera greinarmun á framburði orða og réttritun þeirra. Erfitt er að sjá í gegnum byggingu orðsins "dáldið", en sifjar orðsins dálítið eru hinsvegar mjög augljósar. Það hlýtur að teljast betra að íslenskan sé svona gagnsætt tungumál, það auðveldar okkur að skilja það og læra.

Lokauppgjörs úr MR...

er svo að vænta innan skamms.

Engin ummæli: