laugardagur, nóvember 27, 2004

Fóbía

Ég er haldin fóbíu. Kannski vægri miðað við sumar aðrar, svo sem flughræðslu eða ótta við köngulær, ég veit það ekki. En ef ég lendi í aðstæðum sem vekja hugrenningatengsl til þessa ótta míns, þá finn ég fyrir sterkum, ósjálfráðum óttaviðbrögðum. Hjartað í mér slær hraðar, ég fæ skjálfta í líkamann og mig grípur löngun til þess að hlaupa burt. Ég þori ekkert að fullyrða um það, en mér finnst ekki ólíklegt að þessi fóbía sé algeng meðal kvenna.

Málið er að ég er alveg sjúklega hrædd um að verða nauðgað. Það er ekkert grín, ég er ekki bara að segja þetta. Ég byrjaði að finna fyrir þessum ótta í gagnfræðaskóla, og svo hefur hann komið og farið í bylgjum síðan. Þegar verst lætur hef ég staðið sjálfa mig að því að fyllast svo mikill paranoju þegar ég er ein úti að ganga í myrkri, að ég held á gemsanum mínum, búin að stimpla inn 112 og bíð með fingurinn á "call" takkanum. Þegar ég nefndi þetta einhvern tíma í vinkvennahópi kom reyndar í ljós að ég er ekki sú eina sem hefur gripið til þessa.
Stundum, ef ég hef verið einhvers staðar í partýi eða heimsókn seint um kvöld og þarf að fara á klósettið áður en ég fer, þá ákveð ég samt að geyma það þar til ég er komin í höfn. Ég hef nefnilega heyrt að hægt sé að verjast nauðgurum með því að pissa þegar þeir reyna að ná fram vilja sínum.
Stundum þegar ég er ein að keyra að kvöldlagi, þá læsi ég bílnum, bara til öryggis. Þegar ég skúra seint á kvöldin bregður mér við hvert hljóð sem ég heyri, ekki af draughræðslu, heldur af ótta við að nauðgari læðist aftan að mér.
Meira að segja stundum þegar ég geng niður götuna heima í Mosfellsbæ, þá byrja ég að hugsa um þetta. Ég geri mér alveg grein fyrir hversu tölfræðilega ólíklegt er að ráðist verði á mig þar, en þessi ótti er skynseminni sterkari og ég get ekki kvatt hann niður, ef hann gýs upp á annað borð.

Svo er það spurningin; hvaðan kemur þessi ótti? Er ég bara vænisjúk taugahrúga, eða er grundvöllur fyrir þessu? Ég vildi gjarnan losna undan þessum ótta sem háir mér. Mér leiðist að geta ekki gengið um ein án þess að grafískum myndbrotum af nauðgunum skjóti upp í huga mér, en ég get lítið við því gert. Og satt best að segja þá held ég að þessi ótti minn sé ekki með öllu órökréttur. Kannanir um algengi nauðgana eru margar og mismunandi, en þær sýna þó allar að tíðnin er óhugnalega há. Talið er að 44% bandarískra kvenna hafi verið kynferðislega misþyrmt, það er næstum því önnur hver kona. Hér á Íslandi hefur verið sagt að fjórða hver kona sé misnotuð.
Auðvitað stoðar lítið að lifa í stanslausum ótta, en það er erfitt að berjast gegn honum, búandi yfir þessari vitneskju. Ef að tíðni morða væri jafnhá og nauðgana, ef að annar hver maður væri myrtur, þá væri örugglega meiri almennur ótti í samfélaginu. Og ég fyrir mitt leyti set nauðgun mjög nærri morði ef ég ætti að raða á skala.

Engin ummæli: