Svona gera prinsessur
Ég fór í Eymundsson í gær og sá þar áhugaverða barnabók. Hún er stór og bleik og heitir Svona gera prinsessur, eftir Per Gustavsson. Þegar ég sá bókina var ég mjög snögg að draga ergjandi ályktun, um að þetta væri nú enn ein helvítis prinsessusagan, sem fræddi litlar stelpur um hversu sætar, góðar og umkomulausar þær þyrftu að vera til þess að draumaprinsinn bjargaði þeim loks og gerði þær hamingjusamar. Til þess að ala á gamla prinsessuóþolinu mínu skoðaði ég að sjálfsögðu bókina, en hún kom mér skemmtilega á óvart. Hún byrjar á hefðbundinn á hátt; prinsessan greiðir hárið sitt þúsund sinnum, velur sér skartgripi og kjól fyrir daginn og vígir skip. Svo tekur sagan skemmtilega stefnu, því prinsessan spilar íshokkí og vinnur vegna þess að prinsessur eru alltaf (að sjálfsögðu) mestu tuddarnir í sókninni. Þar á eftir fer hún í ferðalag og bjargar heilu þorpi frá ræningjahóp, því þannig gera prinsessur. Svo berst hún við dreka og bjargar síðan prinsi, eins og prinsessum einum er lagið. Per Gustavsson hefur sem sagt áttað sig á því hversu vafasamur boðskapur prinsessuævintýranna er, og fengið hugmynd sem ég vildi að ég hefði fengið.
Ég vona að foreldrar sameinist um að leggja Ösubusku, Þyrnirós og Garðabrúðu/Rapunzel á hilluna og gefi dætrum sínum þessa bók.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli