Af ýmsu
-Þegar fyrstu fréttir bárust af ránum og gripdeildum í kjölfar náttúruhamfarana í Asíu, var gefið í skyn í fréttaflutningi að þetta væri nú ófyrirséð viðbót við hörmungarnar og óvinur úr óvæntri átt. Ha? Síðan hvenær kemur það á óvart að fólk nýti sér öngþveiti til vafasamra athafna? Varla var ég sú eina sem hugsaði "jæja hvað ætli margir verði nú rændir, lamdir og hve mörgum nauðgað í miðju kaósinu?"
-Ég þoli ekki arkitektúr á Íslandi.
-Það er gaman að horfa á Kisa þrífa sig í framan.
-Ég á mér engan uppáhaldsrithöfund, ennþá a.m.k, en fáum hefur jafnfarsællega tekist að vekja hjá mér trega og Halldóri Laxness.
-Mér finnst gaman þegar ég er að lesa bók og eitthvað gerist í henni sem veldur því að ég þarf að loka bókinni um tíma áður en ég treysti mér til að halda áfram. Það hlýtur að vera til marks um góða persónusköpun, ef mér er nógu umhugað um persónurnar til að það fái á mig þegar eitthvað hendir þær.
-Á endanum virðast margir fá leið á skáldsagnalestri og skipta yfir í annars konar bókmenntir. Ég hef ekki verið sérlega dugleg við að lesa annað en skáldsögur. Í gær las Önni fyrir mig uppáhaldskaflann sinn úr bókinni Sameinuðu þjóðirnar - Tálsýn eða veruleiki? og kann ég honum þakkir fyrir. Líklega mun ég þó ekki sökkva mér í slíkan lestur, en datt hinsvegar í hug að verða mér kannski út um skemmtilega ævisögu til að kíkja í. Amma gaf mér nú ævisögu Jónasar Hallgrímssonar um árið en ég hef ekki náð lengra en að blaða í henni.
-Í 10 ára bekk lék ég mér oft við bekkjarsystur mína sem bjó í götunni minni. Heima hjá henni var jafnan til mikið af fríhafnar-og útlandanammi og stundum þegar hún fór út í garð með hundinn þá laumaðist ég í búrið og stal nammi. Úff.
-Einu sinni stal ég líka límmiða úr BRAVO-blaði sem ég var að skoða úti í búð. Hann var nú líka laus í blaðinu, svo ég bara stóðst ekki freistinguna. Lengra nær afbrotaferill minn ekki.
-Mig er farið að svíða í augun af þreytu.
Beygingarmynd dagsins: Bíói eða better yet, bíós jafnvel bíósins Taumlaus gleði. Hehey taumlaus gaman gaman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli