mánudagur, janúar 31, 2005

Lilja 4-ever

Þegar þessi mynd var í bíó var mikið um hana talað, en ég guggnaði alltaf á því að sjá hana og endaði á einhverju léttmeti. Eiginlega var ég alveg búin að gefa þessa mynd upp á bátinn, ætlaði ekki einu sinni að horfa á hana í gær. Sem betur fer sá ég hana ekki í bíó, því ef ég þekki mig rétt hefði ég þá verið með illt í maganum allan tímann, eins og svo gjarnan yfir spennandi eða áhrifamiklum myndum. Heima í stofu virðist ég ráða betur við mig, get tjúnað niður hrifnæmnina. Eins og allir vita segir þessi mynd frá ömurlegri ævi, og þá sérstaklega ævilokum, stelpunnar Lilju. Sitjandi yfir myndinni leið mér ekki svo illa, hún var ekki þannig að ég þyrfti að grípa fyrir augun eða snúa mér undan, þótt hún sé vissulega ógeðsleg. Eftir á hinsvegar situr sagan af Lilju pikkföst í mér. Ég get ekki tæmt hana út úr kerfinu. Þetta olli langri og óþægilegri andvökunóttu. Loks þegar ég sofnaði klukkan 4 fékk ég hvorki meira né minna en 3 martraðir.
Lokaatriðið er sérstaklega áhrifamikið, þegar Lilja hleypur um í örvinglan í ókunnu landi og getur hvergi snúið sér. Vegna þess hve myndin er vel gerð er auðvelt að lifa sig inn í angist hennar. Ég óskaði þess að ég hefði verið á staðnum, að Lilja hefði hlaupið í fangið á mér og ég hefði getað hjálpað henni. Það stoðaði lítið að reyna að líta á þetta sem "bara bíómynd", því þetta er ekki bara bíómynd heldur mynd sem lýsir raunverulegum aðstæðum alvöru fólks. Þessi brengluðu karlandskotansaumingja, sem geta fengið það af sér að misnota börn svona, ætti að brenna á báli.

Engin ummæli: