sunnudagur, janúar 30, 2005

Viðreynsla?

Í gær fór ég í Smáralind og kíkti á útsölur. Verslunarmiðstöðvaráp er þreytandi og þurfti ég að setjast niður og hvíla mig í smá stund. Sem ég sat þar hlupu hjá tveir litlir strákar, á að giska 8 ára gamlir. Annar þeirra, klæddur skærgrænni peysu með teiknimyndafígúru á maganum, hægði á sér þegar hann sá mig, svo nikkaði hann mig og sagði mannalega: "Blessuð!" Ég ákvað að bregðast vel við þessum tilburðum, blikkaði hann og brosti. Þá gekk hann upp að mér; "Ég hef ekki séð þig hérna áður?" Þar með sló hann mig alveg út af laginu. Þar sem svarið vafðist fyrir mér hélt hann áfram: "Kemurðu of hingað?" -"Uuuu...." svaraði ég, "ja, svona..." Líklega komst strákurinn að þeirri niðurstöðu að svona rola væri ekki hans týpa því hann greip fram í fyrir mér með kurteisislegri kveðju og hljóp burt, skærgræna peysan hans hvarf fyrir hornið. Eitthvað segir mér að þessi gutti verði fjörugur í tilhugalífinu eftir 10 ár eða svo.

Engin ummæli: