laugardagur, febrúar 12, 2005

Eigi einsömul

Þeir dagar eru liðnir, þegar ég bar einungis ábyrgð á sjálfri mér og lék mér áhyggjulaus að stráum. Hefði ég einhvern tíma leikið mér í mömmó þegar ég var lítil mætti segja að ég væri nú komin upp í annað borð í þeim leik; mömmó advanced. Nú er ég nefnilega komin með raunverulegt barn á mína framfærslu. Hún heitir Yaqueline Flor og býr í SOS barnaþorpinu Cuzco, í Perú. Hún er tveggja og hálfs árs gömul og algjör dúlla af myndinni að dæma, sem ég fékk senda í dag. Þar stendur hún uppi á stól, í bláum kjól, hvítum blúndusokkum og lakkskóm, og togar í annan tíkarspenann sinn. Mánaðarframlagið sem hún þarfnast frá mér er 2300kr. Það er andvirði, hvers, t.d. 2 stórra bjóra, pizzasneiðar á Devito's og leigubíls heim? Tæplega það. Þetta eru því fjárútlát sem ég ætti alveg að ráða við, sérstaklega þar sem Önni ákvað að slást í lið með mér þegar hann sá myndina af henni, slíkur er sjarmi hennar. Þetta gera því 1150kr. á mánuði á mann, upphæð sem ég tek ekki einu sinni eftir þótt hverfi af reikningnum hjá mér.

Oft hefur því verið haldið fram að allar okkar gjörðir séu af eigingjörnum hvötum. Ekki ætla ég að þræta fyrir það, því ég á a.m.k. vingott við samvisku mína núna og vil fúslega láta hvern sem er heyra af þessu framtaki mínu.

Ég íhugaði þetta líka út frá ritgerð Ralph Waldo Emerson, "Self-Reliance". Þar talar hann m.a. um að ölmusa grafi undan sjálfstæði viðtakandans, sé merkingarlaus tímaeyðsla gefandans í tilraun til umbóta sem samræmast ekki eðlisávísuninni. Að ölmusa sé til þess gerð að hækka í áliti annarra, fremur en að leysa vandann. Ég er sammála ýmsu í þeirri ritgerð, en hef komist að þeirri niðurstöðu að hún eigi ekki við um þessa góðgerðarstarfsemi mína. Þar sem um barn er að ræða get ég varla verið að grafa undan sjálfstæði hennar, heldur er ég að treysta grunninn að því. Þegar Yaqueline hefur lokið námi sem gerir henni fært að framfleyta sér, þá fær hún ekki lengur að þiggja fjárframlög frá mér. Stelpan fær pening til að lifa og læra, ég gef eitthvað smotterí mér til ánægju; allir græða.

Ég get því með góðri samvisku haldið áfram að styrkja Yaqueline og fylgst með uppvexti hennar. Um helgina ætla ég að kaupa grúví límmiða og finna til myndir af íslenskum snjó til að senda henni. Kannski ég dusti líka rykið af spænskunni minni og skrifi stutt bréf til hennar. Gaman, gaman.

Engin ummæli: