Útvarpsmaður Íslands
Ég hef oft gaman af því, sérstaklega núna í harðærinu, að hlusta á Útvarp Samfés á kvöldin á Rás 2. Yfirleitt er þar spiluð ágætistónlist, á milli viðtala og fjölbreyttra dagskrárliða. Efnið er að vísu ætlað mér yngri unglingum, en það er samt oft skemmtilegt. Á mánudögum koma t.d. læknanemar í heimsókn og ræða um kynlíf unglinga, gömul saga og ný. Auk þess fer þarna fram spurningakeppni félagsmiðstöðva, Viskan, en þar skora ég yfirleitt hærra sem áheyrandi heldur en í Gettu betur. Allt er þetta mjög áheyrilegt vegna þess hve fagmannlega þátturinn er unnin. Einhvern tíma í vetur heyrði ég t.d. þátt á X-inu, ef ég man rétt, eða Skonrokki, sem stjórnað var af unglingum. Stjórnendurnir voru tvær stelpur sem blöðruðu hver ofan í aðra, hálfkláraðar og vanhugsaðar setningar svo erfitt var að fylgja þeim eftir. Þátturinn var bara eins og einkasamtal milli tveggja gelgja, sem einhverra hluta vegna var útvarpað. Krökkunum í útvarpi Samfés eru hinsvegar augljóslega settar ákveðnar vinnureglur og þurfa að standast kröfur, sem þau gera með prýði.
Þá komum við einmitt að uppáhaldinu mínu varðandi þennan þátt, en það er útvarpspilturinn Kalli. Hann er líklega í 10.bekk, eins og aðstoðamaður hans Guffi, en ber það ekki beint með sér í háttum. Kalli þessi hefur allt til að bera sem góður útvarpsmaður þarfnast. Meira að segja röddina, því þótt hún beri þess merki að vera ung þá er hún bæði þýð og yfirveguð. Það fyndna er að táningurinn Kalli er með alla taktana, klisjurnar og frasana á takteinum. Eflaust hefur RÚV sent hann í þriggja mánaða þjálfunarbúðir áður en honum var hleypt í útsendingu, þar sem sérstök áhersla hefur verið lögð á málfar. Hann segir meira að segja "hjá" í staðinn fyrir "at" (@) eins og Rás 2 hefur haldið svo á lofti. (Ég er reyndar frekar andsnúinn þeim rembingi, ef maður ætlar að segja "hjá" verður líka að beygja það sem eftir kemur í þágufalli, sem gengur ekki í öllum tilfellum: "elin-hjá-skoli.is" hljómar ekki vel.)
Hvað sem því líður. Kalli í útvarpi Samfés er fertugur 16 ára piltur sem vert er að hlusta á og læra af hvernig stereótýpísk útvarpsmennska lýsir sér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli