Dapurlegt
Á meðan ég vann í Sambíóunum, en það var rúmlega 3.ára tímabil, þá varð ég óþægilega oft vör við rasisma meðal vinnufélaga minna. Sérstaklega voru sumir strákarnir þarna alveg ótrúlega skoðanaglaðir um innflytjendur á Íslandi, svona miðað við hvað þeir voru almennt ómeðvitaðir um umhverfi sitt og höfðu litlar skoðanir á málefnum. Reyndar var fleira sem þessir strákar áttu sameiginlegt, ýmislegt sem ég tók eftir í þeirra fari, t.d. töluðu þeir afskaplega fátæklega og yfirleitt ranga íslensku. Þeir fóru aldrei nokkurn tíma að sjá þær íslensku myndir sem sýndar voru í bíóinu. Þeir voru lítt hrifnir af bóklestri og má því draga þá ályktun að þeir lesi lítið eftir íslenska höfunda. Þeir höfðu litla sem enga skoðun á íslenskum stjórnmálum, hlustuðu ekki á íslenska tónlist og ég held ég geti fullyrt, miðað við almenna fáfræði þeirra, að þeir hafi ekki kunnað nokkur skil á Íslandssögu eða íslenskri arfleifð. Hvað er það þá sem gerir þessa stráka að Íslendingum? Annað en sú staðreynd að þeir fæddust hér fyrir tilviljun og munun líklega deyja hér án þess að hafa nokkurn tíma unnið þessu landi nokkuð til gagns. Samt telja þeir sig hafa heilagan rétt til þessa landsvæðis og vilja engin "helvítis grjón", svo ég noti þeirra orðalag, inn á þeirra umráðasvæði. En það er víst þar sem fordómarnir þrífast; meðal hinna fáfróðu og illa upplýstu.
Kveikjan að þessari færslu var annars sú að í kvöld hef ég verið að lesa hina ýmsu umræðuvefi á netinu, þar sem fáfræði, rökleysa og heimska veður uppi. Inn á milli er svo skynsemdarfólk sem lemur höfðinu við steininn í vonlausri tilraun til að rökræða við hálfvita sem skortir gagnrýna hugsun. Ég á að vita betur en að lesa þessa umræðuvefi því þeir fylla mig depurð. Ef umræðuvefir internetsins endurspegla almenning, þá er hætt við að almenningur sé illa gefinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli