Femínistapjása
Í Morgunblaðinu fyrir nokkru síðan var sagt frá könnun sem var gerð í barnaskólum landsins. Þar kom meðal annars fram að bæði meðal kennara og nemenda væri algengt viðhorf að velgengni stráka stafaði af því að þeir væru snillingar, þeir væru svo klárir og frumlegir; en velgengni stelpna stafaði af því að þær væru duglegar og samviskusamar. Þetta varð okkur stelpunum í 6.A einmitt tíðrætt um, því okkur fannst við skynja þetta viðhorf frá sumum kennurum.
Í sömu könnun var nemendum skipt upp í hópa með jöfnum kynjahlutföllum og þeim sagt að velja sér einn formann og svo ættu flokkarnir að heyja kosningabaráttu sín á milli, ef ég man rétt. Útkoman var sú að hvergi var stelpa valin formaður. Stelpurnar sjálfar töldu að strákarnir væru betur til þess fallnir að stjórna en þær, þeir væru klárari og hæfileikaríkari í svoleiðis löguðu. Almennt voru þau sammála um að þeirra flokkur kæmist síður áfram ef stelpa færi fyrir honum, þau myndu tapa vegna þess að enginn myndi kjósa þau.
Er hægt að vonast til þess að eitthvað muni miða áfram í jöfnun kynahlutfalla í stjórnunarstöðum, ef að sannfæringin er strax orðin þessi í barnaskóla?
Er niðurstaðan kannski sú að stelpum sé bara greinilega ekki eðlislægt að vera framagjarnar? Rétt eins og 10 ára stelpum er meðfætt og eðlislægt að vilja klæðast g-strengjum. (Í raun var verið að kæfa eðli þeirra og hefta á grimmilegan hátt áður en barna g-strengir komust í tísku.)
Stundum finnst mér öll þessi jafnréttisumræða vera bara svaml í yfirborðinu. Gott dæmi um það er t.d. þrætan um Gettu betur. Á mörgum bloggsíðum og umræðuvefjum hefur komið upp tal um kynjaskiptinguna í þessari keppni, og yfirleitt er það afgreitt á sama hátt. Niðurstaðan er sú að stelpur "hafa bara ekki áhuga á svona löguðu", þær "vilja bara ekki taka þátt". Eins og þetta bara orð segi allt sem segja þarf. Umræðunni ætti einmitt ekki að vera lokið þarna, því það sem við þurfum að vita er hvers vegna þær hafa ekki áhuga, hvers vegna þær vilja ekki taka þátt. Svo virðist nefnilega vera sem að stelpum finnist þær ekki eiga neitt erindi í þessa keppni; stelpur, sem eru fullkomlega hæfar til að taka þátt, telja sig ekki vera nógu hæfar. Þær vanmeta eigin getu. Þeim dettur ekki einu sinni í hug að þetta sé eitthvað fyrir þær.
Svo er líka sagt, sem er líklega rétt, að fræðibókalestur og grúsk sé algengara meðal stráka heldur en stelpna, a.m.k. á barnsaldri. Þá má aftur spyrja sig hver ástæðan er fyrir því. Er það líka eðlið? Langar stelpur bara ekkert til að vita hluti?
Í Fréttablaðinu í gær var líka athyglisverð frétt. Þar var skýrt frá ástralskri könnun sem leiddi í ljós að meira en helmingur stelpna á aldrinum 5-8 ára eru óánægðar með líkama sinn og stefna á að fara í megrun. Getur verið, getur hugsanlega, mögulega, kannski verið að þetta hafi eitthvað með fyrirmyndir að gera? Eitthvað með uppeldi? Félagsmótun frekar en eðlismótun?
Tökum sem dæmi 5 ára gamla stelpu. Frá því hún man eftir sér (hversu langt sem það nær) hefur henni fyrst og fremst verið hrósað fyrir útlitið. "Voða ertu í fallegum kjól í dag", "nei mikið ertu sæt", "ofsalega er fallegt á þér hárið", "þú ert bara alveg eins og prinsessa". Það er ekki ólíklegt, amk ekki fjarstæðukennt, að smám saman leggi litla stelpan saman 2 og 2 og fái það út að eftirsóttast í hennar fari sé útlitið. Hún fari því að vera meðvituð um að vera sæt og góð vegna þess að fyrir það er henni hrósað. Á sama tíma er tekið um upphandlegg bróður hennar og hann spurður "hvað ertu sterkur? hvað ertu stór?" Honum eru gefnar fræðslubækur um risaeðlur og dýr og indíána og vísindi. Hann fær kannski smásjá í jólagjöf, hún fær póníhest. Gæti verið að þetta hafi einhver áhrif á mótun þeirra? Eða er nálgunin svona vegna þess að þannig er eðli barnanna? Þetta er svona hænan eða eggið spurning.
Niðurstaðan?
Stelpur; hættið að sannfæra ykkur um að strákar séu klárari og dugmeiri en þið, þeir eru það ekki. Og foreldrar; hættið að ala dætur ykkar upp eins og puntdúkkur, þær eru það ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli