laugardagur, apríl 23, 2005


Heimurinn er búinn að vera allt of fallegur undanfarið til að hægt sé að læra nokkurn skapaðan hlut. Það er alveg vonlaust að skikka mann í próf og ritgerðaskrif þegar vorið er búið að læsa klónum í allan líkamann á manni. Ég finn alltaf meira fyrir árstíðamuninum eftir því sem ég eldist. Sem krakki velti maður sér lítið upp úr þessu, en ég finn mikið fyrir skammdeginu núna. Það er bara ekki hægt að líkja saman morgunskapinu núna og í desember. Svo er ég miklu léttari og orkumeiri, en þetta þarf allt að bæla niður yfir lestrinum.
Ég get líka ómögulega hlustað á tónlist við þessar aðstæður, hugurinn reikar alltaf út um gluggann og fyrri sumarminningar streyma fram. Alls konar klénar minningar um útiveru og gras og gönguferðir og gítarsöng og sund og svaml og léttklædd partý og grillveislur og sólbruna. Svo syngja fuglarnir utan við gluggann minn alla nóttina. Í gær fór ég í gönguferð út að Vífilstaðavatni og það ilmaði allt af gróðri. Mér fannst það alveg grátlegt að þurfa að fara inn aftur. Það er svo fallegt úti. Fallegt, fallegt, fallegt.

Engin ummæli: