föstudagur, apríl 22, 2005

Ósléttar draumfarir

Þessa vikuna hafa draumfarir mínar verið í meira lagi líflegar, líklega vegna óreglulegs svefns. Þrjár nætur í röð hefur mig nú dreymt að ég sé búin að eignast litla dóttur. Reyndar alveg sérstaklega litla, því núna síðast þá hafði ég trassað að kaupa vöggu handa henni, en "geymdi" hana í staðinn í boxinu utan af i-podinum mínum. Svo var ég alltaf að knúsa boxið í hálsakotinu, en þrýsti þá framhliðinni óvart upp við nefið á litlu stelpunni svo hún átti erfitt með andardrátt og það kom móða á glerið. Sem sagt óhæf móðir með öllu. Ég hef haft miklar áhyggjur af þessu núna nokkrar nætur í röð, enda dreymir mig til skiptis að ég sé að gleyma að skipta á bleyjunni hennar, eða að hún eigi engin föt. Einhverra hluta vegna hef ég líka, í draumunum, haldið því leyndu fyrir tengdaforeldrum mínum að þau eigi þetta barnabarn, og gleymi líka alltaf að láta fjölskylduna mína vita að ég sé búin að skíra hana Auði. Eiginlega mætti segja að þessir draumar séu klúður frá upphafi til enda og ég er alltaf mjög miður mín í þeim. Það er spurning hvað veldur þessu; kannski prófastress, eða sú staðreynd að ég hef fundið fyrir óvenjumikilli móðurtilfinningu undanfarið, enda umgengist ungabörn meira en ég á að venjast.

Sem betur fer eru þó draumarnir ekki allir svona óþægilegir. T.d. dreymdi mig að Ragnar pabbi hans Önna hélt upp á afmælið sitt með söngskemmtun í Háskólabíó. Hann endaði svo kvöldið á því að klæða sig í norskan þjóðbúning og stilla gestunum upp til höfrungahlaups á sviðinu, milli þess sem hann sjálfur tók handahlaup. Ég vaknaði endurnærð morguninn eftir þann draum.

Engin ummæli: