fimmtudagur, apríl 28, 2005

Wer mit essen will, muss auch mit dreschen

Þá er sumarvinnan komin á hreint. Í þetta skiptið verður söðlað um starfsvettvang og kreditkortabransinn tekinn fyrir, því ég mun nú starfa í þjónustuveri Kreditkorta hf Jafnframt verður þetta lengsta vinnusumar mitt til þessa þar sem það slagar hátt í 4 mánuði. Þetta er allt liður í ítarlegri fjárhagsáætlun minni sem ég hef skipulagt og skjalfest af miklum metnaði. Gangi hún eftir ætti ég í lok sumars að hafa meiri pening undir höndum en nokkru sinni fyrr (þó sú upphæð verði reyndar ekkert yfirgengileg), og er það vel.

Ég hef aldrei skilið fólk sem heldur því fram að það þurfi ekki á pening að halda. Auðvitað þurfa allir á peningum að halda, það verður ekkert hjá því komist. Ekki nema viðkomandi ætli að lifa á foreldrum sínum eða kerfinu. Það er líka ekkert göfugt að vera blankur eins og sumum virðist finnast. Þeir sem halda því fram hafa líklega aldrei þurft að reyna það á eigin skinni. Auður og ríkidæmi er að sjálfsögðu ekki það sem mestu skiptir í lífinu og peningar einir eru ekki úrslitavald um hamingju, en þeir hafi fjári mikið með hana að gera samt sem áður. Sjálf vildi ég gjarnan verða efnuð í lífinu og vonast til að þurfa ekki að lepja dauðann úr skel í mínu framtíðarstarfi, sama hvert það verður.
Ég tel mig því ekki vera yfir það hafna að sinna ýmsum störfum til þess að geta verið fjárhagslega sjálfstæð. Ég hef alltaf unnið með skóla síðan ég var 16 ára og hef reynt að forðast það í lengstu lög að sníkja peninga af foreldrum mínum. Stundum fær maður það á tilfinninguna að sumir jafnaldrar manns telji sig of góða til að vinna. Alltént er til fólk jafngamalt mér og jafnvel eldra sem aldrei hefur unnið handtak á ævi sinni. En það er nú bara þannig að ungt fólk, sérstaklega undir tvítugu og án stúdentsprófs, er bara ekki sérlega eftirsóttir vinnukraftar í "góðum störfum". Þess vegna hefur maður ekki efni á því að setja einhverja svakalega standarda eða neita að vinna ella, ekki nema maður ætli sér að vera háður vasapening frá mömmu og pabba fram eftir öllum aldri. Og ekki get ég sagt að mér finnist það virðingarvert.

Ebay öppdeit

Í óspurðum fréttum get ég frætt áhugasama um það að ebaykjóllinn er kominn og hann smellpassar. Like a glove.

Engin ummæli: