Fall er farar
Þá er fyrsti vinnudagurinn liðinn. Hann gekk ágætlega að flestu leyti held ég bara. Það sem fór aðallega úrskeiðis var eiginlega fatavalið. Ekki að ég hafi verið ósmekklega til fara, nei. Ég var hinsvegar í einhverjum vandræðum með hverju best væri að klæðast og þarf líklega að koma mér upp dálitlum byrgðum af vinnufötum. Til bráðabirgða dró ég fram hvíta skyrtu sem ég hafði ekki notað í rúmt ár. Ástæðuna taldi ég vera þá að ein tala hafði losnað af henni og kippti ég því í liðinn með því að sauma hana aftur á af mikilli handlagni. Ég var hinsvegar búin að gleyma því hvers vegna ég raunverulega hætti að nota þessa skyrtu, en það rifjaðist óþægilega upp fyrir mér í dag. Tölurnar á henni eru nefnilega í smærra lagi og þar sem það strekkist aðeins á skyrtunni yfir barminn, svo strekkist á götunum, þá vilja tvær efstu tölurnar gjarnan losna. Þetta gerðist aftur og aftur í dag, jafnvel þótt ég væri sífellt með höndina í viðbragðsstöðu að fyrirbyggja slysið. Skyrtan sprakk og brjóstin lágu úti. Virkilega gott first impression á vinnufélagana. Á morgun mun ég mæta í þéttofinni peysu.
Tónleikar
Sigurjón Bergþór Daðason mun halda útskriftartónleika sína annað kvöld, í Salnum í Kópavogi klukkan 20:00. Ég hvet alla til að mæta og sjá hvers vegna Grjóni fór alltaf fyrstur manna úr partýjum í vetur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli