Samkynhneigður, en ekki hommi.
Mikið fer í taugarnar á mér þegar konur hamra á því í örvæntingu að þær séu sko ekki femínistar. Ég segi konur því þeim virðist mun frekar en körlum finnast mikilvægt að sverja þennan isma af sér, eins og af ótta við að fá á sig dóminn "femínisti já, ein af þeim" og þá um leið væntanlega ekki eftirsóknarverður kvenkostur lengur. En það að vera hlynntur jafnréttisbaráttunni en þvertaka um leið fyrir að vera femínisti er svona svipað eins og ef samkynhneigður maður myndi segja
"Jújú, ég er kannski samkynhneigður, en ég er sko ekki hommi!"
og játa sig þar með sigraðan af hommahöturum sem vilja að hommar séu álitnir slæmir og óvirðingarverðir. Það er hinsvegar ekkert að því að vera hommi, og það er heldur nákvæmlega ekkert slæmt við að vera femínisti. Femínismi er afskaplega margbreytileg stefna og á sér margar birtingarmyndir sem ekki allir femínistar þurfa að vera sammála, enda eru þeir fjöldamargir um allan heim og lúta engu miðstýrðu afli. Með því að gangast við því að vera femínisti er maður þannig í rauninni bara að samþykkja það að jafnrétti kynjanna sé enn ekki fullkomlega náð og til að vinna úr því þurfi að bæta hlut kvenna. Eða hvað? Er það ekki rétta nálgunin þegar koma á jafnvægi milli tveggja ójafnra einstaklinga? Til þess að ná jafnvægi þarf annað hvort að bæta hag annars, eða skerða hag hins. Hið fyrrnefnda hefur hingað til talist skynsamari nálgun.
Almennt er viðurkennt að í öllum samfélögum heimsins, hverju eina og einasta, halli á konur, en mismikið þó og líklega einna minnst á Íslandi. Þess vegna hefur jafnréttisbaráttan einkum beinst að konum hingað til. Það hefur líka sýnt sig að karlar láta sig hana almennt litlu skipta. Jú, auðvitað eru þeir samþykkir jafnrétti kynjanna, en fæstir virðast þeir sjá þetta sem sína baráttu eða finna hjá sér neina köllun til að taka þátt. Að sama skapi virðast karlar ekki hafa séð mikla ástæðu til að hefja upp raust sína og berjast sérstaklega fyrir rétti sínum sem karlmanna, sem bendir kannski til þess að staða þeirra sem hóps sé nokkuð trygg. Enda er staða þeirra viðmiðið.
Jafnréttisbaráttan er því háð með það að sjónarmiði að rétta hlut kvenna. Þess vegna ER jafnréttisbaráttan femínismi. Ef einhver ætlar að halda því fram að hann/hún sé ekki femínisti vegna þess að “jafnrétti snúist ekki um að gera konur jafnar körlum, heldur að gera kynin jöfn” þá sér sá hinn sami ekki heildarmyndina. Eða öllu heldur, hann sér bara heildarmyndina en gerir sér ekki grein fyrir smáatriðunum.
Ef viðkomandi vill svo ekki kenna sig við femínisma vegna þess að hann er ósammála einstaka femínistum, þá er það ósanngirni. Rétt eins og einn maður með slaufu, sem kallar sig sjálfstæðismann og heldur úti heimskulegri heimasíðu, er ekki forsenda til að dæma alla sjálfstæðismenn út frá, þá er ekki hægt að alhæfa um femínista heimsins út frá einni konu í Fossvoginum sem kastar bleikum steinum.
Jákvæð mismunun fellur undir þetta. Henni er sum staðar beitt upp að vissu marki og eru skoðanir skiptar, bæði meðal femínista og annarra. En sú aðferð er aðeins ein nálgun sem má alls ekki alhæfa út frá, femínismi snýst um svo miklu, miklu meira. Einlægir jafnréttissinnar sem eru mótfallnir jákvæðri mismunun ættu því frekar að berjast fyrir því að öðrum aðferðum sé beitt, í nafni femínisma, heldur en að mótmæla femínismanum sem slíkum því hann á fullkomlega rétt á sér.
Ég ætlast ekki til þess að allir sýni jafnréttisbaráttunni áhuga. Mér finnst hinsvegar leiðinlegt þegar einu afskipti sumra eru einstaka yfirlýsingar um “týpískt femínistatuð” og þegar einblínt er á það neikvæða. Sjálf er ég alls ekki sammála öllu sem gert er og sagt í nafni femínisma en finnst það þó ekki ástæða til að vera afhuga honum. Rétt eins og hommi ætti ekki að skammast sín fyrir að vera hommi, jafnvel þótt hann sé ósammála því að Páll Óskar klæðist leðursamfestingi í nafni samkynhneigðar. (svo hípóþetískt dæmi sé tekið) Þar sem ég er áhugasöm um jafnrétti kynjanna finnst mér liggja beint við að ég flokkist sem femínisti, a.m.k. á meðan staðan er eins og hún er í dag. Ef hinsvegar það skyldi einhvern tíma gerast að karlar verði sá hópur sem hallar á, þá skal ég fyrst allra afsala mér femínistatitlinum og kalla mig maskúlínista.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli