Af góðum og illum
Ekki er liðin vika síðan við fluttum í miðbæinn og þegar hefur gerð tilraun til að brjótast inn hjá okkur. Nú gæti ég stokkið til með sleggjudóma og kallað miðbæinn glæpabæli, en þar sem bílnum okkar var nú stolið af planinu heima í Mosó þarna um árið, þá er glæpatíðnin enn sem komið er jafnhá á hvoru heimili fyrir sig. Og hækkar vonandi ekki.
Það sem hryggir mig mest við að flytja í miðbæinn er því ekki ótti minn við umhverfið, því hann er ekki til staðar. Mér þykir hinsvegar leitt að vera nú flutt úr úthverfinu, þar sem ég hef búið í 20 ár, án þess að hafa nokkru sinni komist í kynni við illa auðmanninn sem býr þar. Sem saklaust úthverfabarn áttaði ég mig auðvitað ekki á því að vantreysta nágrönnum mínum, en þegar ég byrjaði í MR var mér fljótt leiddur í ljós allur sannleikurinn um vonda kapítalistann sem ríkti í úthverfinu mínu. Síðan þá hef ég skimað um í leit að þessu illmenni og grunað alla. Var það kannski hann Gunni vil hliðina á, sem er með óbilandi bíladellu og á konu sem vildi endilega fá mig í heimsókn til að skoða myndir af dóttur sinni? Kannski var það Steini Té sem bjó á móti okkur í den og keyrði vörubíl. Eða rauðhærða húsmóðirin sem flutti inn þegar Steini fór, hún sást stundum úti með börnin sín þrjú eða fjögur og mér fannst hún alltaf vera með bauga. Þegar ég hugsa um það getur vel verið að hún láta börnin sín þræla á saumastofu við að framleiða íþróttagalla og svitabönd. Illa úthverfa-kapítalistanum stendur nefnilega á sama um velferð barna, hann hugsar ekki um neitt nema sjálfan sig og peninga. Og eins og allir vita eru peningar verkfæri djöfulsins og því merki um sanna góðmennsku að eiga sem minnst af þeim.
Nú þegar ég er flutt í hinn heilaga miðbæ get ég loksins hætt að vera á varðbergi gagnvart vonda kapítalistanum. Að vísu er ég hér umkringd mestu auðmönnum landsins. Björgólfur Thor býr við endann á götunni minni (heimili hans er auðþekkjanlegt á stóra, svarta Hummer jeppanum fyrir framan það) og svo býr hann Jón Ásgeir hérna rétt fyrir neðan, á Laufásvegi þar sem dýrustu fasteignir landsins standa í einfaldri röð. En þeir koma hvorugur til greina sem vondi kapítalistinn, því búsetuval þeirra ber óumdeilanlegan vott um manngæsku og hreint hjarta. Eins og aðrir íbúar miðbæjarins þrá þeir ekkert heitar en heimsfrið og alheimsást, ólíkt illmennunum í úthverfunum sem myndu öll drepa ömmu sína fyrir meira ríkidæmi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli