Jóakim Aðalönd / Scrooge McDuck
Nýlega rættist gamall draumur þegar mér barst brúnn pakki frá Ameríkunni. Innihald pakkans var þessi bók, sem segir frá æviárum Jóakims Aðalandar. Þetta er sagnabálkur, ef svo má að orði komast, saminn og teiknaður af Don Rosa. Sagan hefst á 10 ára afmælisdegi Jóakims, þegar hann ber kastala Aðalandarættarinnar augum fyrsta sinni og fær skóburstasett í afmælisgjöf frá pabba sínum. Sem skóburstari vann hann sér inn fyrsta skildinginn, sem var amerískur, og ákvað í framhaldi af því að sigla vestur um haf og freista gæfunnar í landi tækifæranna. Síðan eru ævintýri hans rakin, en þau teygja sig um allan heim. Markmið Don Rosa var að koma til skila hverju eina og einasta smáatriði sem nokkurn tíma kom fram um Jóakim í sögum Carl Barks, skapara hans. Inn í þetta fléttast svo ýmsar sögulegar og landfræðilegar vísanir, en Jóakim er svolítið eins og Forrest Gump að því leyti að hann tengist mörgum sögulegum atburðum og persónum.
Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Don Rosa, og hef elskað Jóakim jafnheitt og ég hata Mikka mús. Þessa bók hefur mig dreymt um í mörg ár og nú var hún loksins endurútgefin. Jóakim er svo frábær og heildstæður karakter, í honum kristallast allur breyskleiki mannsins (þótt hann sé önd), tregi, gleði, sorg og húmor. Það er ekki hægt annað en að elska hann eftir að hafa fylgst með honum þræla á þrautseigjunni frá því að vera fátæk, ung ævintýraönd, yfir í að verða ríkasta önd heims sem hefur misst einu ástina sína og fjölskyldu. Algjörlega klassísk saga. Bókin endar á því að Jóakim er orðinn einangraður og bitur milljóner, þar til hann hittir Andrés fullorðinn í fyrsta sinn, og frændur sína Ripp, Rapp og Rupp. Eftir það hefst síðan nýtt tímabil þar sem Jóakim hefur ævintýramennskuna á ný í félagi við frændur sína og fer út í geim, inn að kjarna jarðar, berst við franskan meistaraþjóf ofl. En það er önnur saga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli