Flutningar
Það er heilmikið havarí og fyrirtæki að flytjast búferlum, enda tók það okkur mestalla helgina. Þegar ættingjum var tilkynnt um þessar fyrirætlanir kom í ljós að þegar flutt er að heiman kemur margt meira til en mann grunar. Það ku t.d. vera mjög mikilvægt að bera fyrst af öllu mat í húsið, til að leggja ekki hungurbölvun á heimilið. Því var amma mætt á Freyjugötuna með hjónabandssælu, rjóma og salt áður en flutningar hófust. Móðursystkini Önna voru svo alveg gallhörð á því að fyrsta gistinóttin yrði að vera aðfaranótt sunnudags, annars færi allt til fjandans. Laugardagur er nefnilega til lukku, sjáið þið til, og sunnudagur til sælu. Aðfaranótt mánudags gengi alls ekki, þar sem mánudagur er til mæðu, og aðfaranótt þriðjudags yrði hrein katastrófa, því þriðjudagur er auðvitað til þrautar. Úr varð því að við bjuggum um okkur á laugardagskvöldinu, en það var frekar vegna löngunar til að komast á staðinn, frekar en vegna hjátrúar.
Nú erum við annars búin að koma okkur ótrúlega vel fyrir, en það er þó ýmislegt sem þarf að dútla við næstu daga. Það eina sem skyggir á sæluna svona til að byrja með allavega er hin ógeðslega kattaskítsfýla sem vofir yfir innganginum, bak við húsið. Allir Þingholtanna kettir virðast líta á þennan litla blett sem kattasandskassann sinn, með miður skemmtilegum afleiðingum fyrir íbúa Freyjugötu 25b. Aðgerða er þörf. En ætli það sé ekki brýnna að kaupa mat í ískápinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli