Forræðisógeð
Um daginn ætlaði ég að elda ljúffengar, ofnabakaðar kjúklingabringur, með smjörsteiktum sveppum og hvítlaut og hvítvínssósu. Nema hvað. Mig vantaði hvítvín. Ef allt væri með felldu hefði ég gert mér lítið fyrir, skroppið niður í kjörbúðina á Grundarstíg eða í 10-11 og keypt eina flösku. En nei, mér er bannað að gera það. Ég má ekki kaupa hvítvín úti í næstu búð þegar mig vantar að gera hvítvínssósu, heldur verð ég að skipuleggja matargerðina fyrirfram og versla hjá Ríkinu (undir dulnefni Vínbúðar) innan afar takmarkaðs opnunartíma. Djöfull þoli ég það ekki. Ég krefst þess ekki að sterkt brennivín sé selt á hverju götuhorni, en mér finnst það bara sjálfsagður hlutur að hægt sé að kaupa léttvín í matvöruverslunum. Hver græðir á að hafa þetta svona? Hver vill hafa þetta svona? Ég hugsa með trega til Parísar, þar sem hægt er að kaupa fínasta vín í hvaða búðarholurassgati sem er, og ekki veit ég til þess að Frakkar eigi við meira áfengisvandamál að stríða en Íslendingar.
Nú legg ég hinsvegar af stað til Danmerkur eftir u.þ.b. kortér, þar ættu vínkaup varla að verða vandamál.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli