miðvikudagur, ágúst 17, 2005

The Half-Blood Prince



Varúð - mögulegur spoiler


Ég er gjörsamlega miður mín yfir nýjustu Harry Potter bókinni. Ég lauk við hana með tárin í augunum og þykkan kökk í hálsinum, og er enn að jafna mig. Jafnvel þótt mig hafi alltaf grunað hver myndi deyja, áður en bókin kom út, þá vonaði ég samt alveg fram í síðasta kaflann að það myndi ekki gerast. Þótt það hafi verið kominn tími á þetta, tæknilega séð, upp á þróun sögunnar og Harrys að gera, þá er þetta samt glatað. Mér finnst líka glatað að ég sé virkilega búin að lesa sjöttu bókina og eigi bara eina eftir. Eftir að hafa fylgt þessum persónum eftir í 7 ár (ég las fyrstu bókina 1998, 13 ára gömul) þá er sárt að hugsa til þess að bráðum muni ánægjunni ljúka. Þessa bók reyndi ég að treina eins og mögulegt var, en einhvern tíma varð henni að ljúka. Ég skil ekki þá sem að tíma því að taka bara einn dag í að lesa hana samfleytt í runu. Ég kýs frekar að geta hlakkað til lestursins eftir vinnu í marga daga.
The Half Blood Prince set ég tvímælalaust á stall með The Prisoner of Azkaban, sem hingað til hefur verið í mestu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst hún betri en tvær síðustu bækur, en ætli ég lesi þær samt ekki aftur fljótlega til upprifjunar (og til að framlengja ánægjuna af hinni gamalkunnu Harry Potter vímu sem ég finn nú aftur fyrir.) Þessari bók tókst svo sannarlega að endurvekja barnslegu hughrifin sem ég fann svo oft sem krakki en því miður sjaldnar núna. J.K.Rowling kann að slá á réttu strengina, allavega í mínu tilfelli.

Engin ummæli: