Það er nú meira hvað blaðamenn geta kvartað, vælt og tuðað yfir hjólhýsaeign þjóðarinnar. Allir viðhorfs, bakþanka, pælinga og bloggdálkar í blöðum landsins hafa tekið þetta viðfangsefni að minnsta kosti einu sinni fyrir í sumar, og alltaf með einhverjum umvöndunartón. "Þessi farartæki eru örugglega rándýr", "það er ekki eins og fólkið hafi raunverulega efni á þessu", "af hverju getur þetta fólk ekki bara gist í tjaldi eins og aðrir", "vegakerfið ber þetta ekki" osfrv. Sjálf hef ég afar takmarkaðan áhuga á að ferðast með svona kerru um landið, en má fólk sem það vill ekki bara gera það í friði? Hvort sem það hefur efni á því (sem ég hef fulla trú á að það hafi) eða ekki. Hvers vegna þarf fólk að láta það fara svona í taugarnar á sér að sumir kjósi annan lífstíl en það sjálft?

Undanfarið hefur gefist gott tækifæri til kaupa á þessum græjum enda hafa margir stokkið til og nýtt sér það. Sumir að uppfylla langþráðan draum eða þörf. Og hvað með það? Ég hef ekki nokkrurn skapaðan hlut við svona kvikindi að gera, en get samt alveg umborið öðrum að eiga þetta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli