fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Þrálát rangfærsla

Í viðskiptablaði Fréttablaðsins í gær má finna litla klausu með vísunum í Financial Times. Þar var víst fjallað um gjaldþrot Atkins Nutritional Inc, fyrirtæki Dr. Robert Atkins sem Atkins kúrinn frægi er nefndur eftir. Í klausunni eru vangaveltur um hvers vegna fyrirtækið lýsti sig gjaldþrota, og enda þeir á að segja að kannski hafi það bara verið "vegna þess að Atkins var sjálfur spikfeitur og dó fyrir aldur fram."
Við dauða Atkins virðist hafa komist af stað þessi lífsseiga flökkusaga um að Atkins hafi fengið hjartaáfall og kransæðastíflu vegna þess að hann var sjálfur svo feitur. Líklega er ástæðan sú að fólk vill svo gjarnan að þetta sé satt og finnst það svo geðveik pæling, eða eitthvað, að sjálfur skapari lífsstílsins hafi dáið vegna hans. Það væri vissulega mjög kaldhæðnislegt ef sú væri raunin, en svo er hinsvegar ekki. Það fer í taugarnar á mér að fólk skuli þrjóskast svona við að halda í þessa sögu þegar hún er alls ekki rétt.
Sannleikurinn er sá að Dr.Atkins rann í hálku á leið til vinnu, en hann gekk alltaf í vinnuna, og höfuðið á honum skall í gangstéttarbrúnina sem olli lífshættulegum áverkum. Sumir halda því fram að hann hafi "sko dottið á höfuðið af því að hann fékk hjartaáfall". En nei það er ekki rétt. Nóttina áður hafði verið snjóstormur í New York, þar sem hann bjó, og göturnar voru óvenju hálar. Atkins var líka 72 ára gamall og jafnvægisskynið og stöðugleikinn því líklega ekki eins og hjá tvítugum manni. Af þessari mynd af honum að dæma er heldur ekki hægt að sá að maðurinn hafi verið spikfeitur, heldur í mesta lagi framsettur eins og eðlilegt er af manni á áttræðisaldri. Þessi vinsæla flökkusaga er því algjört kjaftæði og pirrandi að fólk skuli lepja hana svona upp og skrifa hana í blöðin, hvort heldur sem það er Financial Times eða Fréttablaðið, án þess að athuga sannleiksgildi hennar.

Engin ummæli: