Beiskja
Það er fyndið hvernig sum smávægileg atvik í lífi manns geta setið í undirmeðvitundinni fram eftir öllum aldri og pirrað mann þegar þau rifjast upp. Í gær t.d. sat ég hér á bókhlöðunni með poka af Gunnars kleinuhringjum fyrir framan mig, en af þeim borða ég einn á dag í nesti. (Og endist pokinn því í 5 daga.) Þá minntist ég þess þegar ég hafði sama fyrirkomulag á Íþöku einhver jólaprófin, og geymdi pokann á borðinu mínu yfir nóttina. Nema hvað, einn morguninn þegar ég mætti höfðu óprúttnir aðiljar tekið sig til og étið alla kleinuhringina mína (þá þrjá sem voru afgangs.) Þegar mér varð hugsað til þessa í gær rifjaðist upp fyrir mér hversu bullandi reið ég varð inni í mér þá, og það var eins og reiðin syði upp aftur. En svo sá ég nú að ekki þýðir að vera langrækin yfir svona smáatriði, svo ég bægði reiðinni burt.
Hins vegar er annað atvik sem ég hef átt erfiðara með að gleyma og ég verð ennþá reið þegar ég hugsa um það, þótt ómerkilegt sé í stærra samhengi. Atvik þetta átti sér stað á útskriftinni minni úr 10.bekk, þegar veitt voru verðlaun fyrir námsárangur. Þannig var mál með vexti að ég hafði fengið hæstu einkunn í skólanum mínum í ensku, ásamt henni Elínu Lóu góðvinkonu minni. Ef ég man rétt var þetta þannig að við fengum báðar hæstu einkunn á samræmda prófinu, en á skólaprófinu fékk ég 9,5 en Elín Lóa 9,0. Því gerði ég ráð fyrir að fá viðurkenningu, en þegar að því kom var aðeins Elín Lóa kölluð upp, en ekki ég. Eftir athöfnina mætti ég svo enskukennaranum mínum, Gyðu Jónsdóttur, á ganginum og þá sagði hún við mig:
"Jæja, ég hefði nú alveg viljað veita þér verðlaun líka, haha!"
Og svo brosti hún eins og þetta væri allt afskaplega fyndið og skemmtilegt. Ég var hinsvegar ekki á sömu skoðun. Hefði hún alveg viljað veita mér verðlaun líka, en....hvað? Fannst henni Elín Lóa skemmtilegri týpa? Átti ég það síður skilið en Elín Lóa? Afhverju að veita henni verðlaun, en ekki mér, fyrir eitthvað sem við höfðum báðar gert alveg jafn vel? Þarna fannst mér gróflega á mér brotið og kvaddi grunnskólann sármóðguð.
Svo var þetta reyndar löngu gleymt, þar til á útskriftinni úr MR að þetta rifjaðist upp fyrir mér. Þá vildi nefnilega svo til að ég hafði fengið 10 í einkunn í íslenskum fræðum, bæði munnlegum og skriflegum, og 9,5 í kennaraeinkunn. Stóð ég því í þeirri trú til síðustu stundar að þetta væri viðurkenningarvert, enda hafði kennarinn látið það í veðri vaka. En annað kom á daginn, og bitra-Una sneri tvíefld aftur.
Þessar nístandi sáru minningar komu upp í hugann þegar ég byrjaði lærdóminn í morgun og sá fram á að frammistaða mín væri ekki líkleg til verðlauna þetta misserið. En ekki dugir að skæla Sigríður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli