Svona fyrst ég er að þessu
Ég er reyndar með aðra sögu af ranglæti sem ég var beitt af kennara í grunnskóla. Nema hvað ég hugsa ekki lengur til þessa atviks með biturð, heldur hneykslan. Þetta átti sér stað í 10 ára bekk Varmárskóla. Á þessum tíma þótti mér afskaplega gaman að læra íslensku í skólanum. Ég man ekki hvað námsbókin hét, (man þó að hún var hvít með grænum stöfum) en einhverju sinni þegar ég var í ham tók ég mig til og kláraði einn eða tvo kafla, í vinnubókinni, umfram þá sem okkur voru settir fyrir. Daginn eftir, þegar ég var tekin upp, sagði ég kennaranum glaðhlakkaleg að ég hefði "óvart" farið fram úr sjálfri mér í heimalærdóminum. Ég átti ekki von á öðru en að kennarinn tæki vel í það og hrósaði mér jafnvel fyrir. Þvílíkur misskilningur. Í þessum bekk átti greinilega ekki að líðast að sumir ynnu hraðar en aðrir. Til að koma í veg fyrir slíkan ofmetnað tók kennarinn bókin mína og strokaði allt út úr henni sem ég átti ekki að vera búin með, á meðan ég stóð hjá kennaraborðinu og beið.
Réttlætiskennd minni var alvarlega misboðið þennan dag, en ég var ekki nema 9 ára og enn ekki vön því að fullorðið fólk hegðaði sér eins og asnar. Ég vissi því ekki alveg hvernig ég ætti að bregðast við þessari "refsingu", svo ég hló bara vandræðalega þegar hún rétti mér bókina aftur. Framvegis gætti ég mín þó á því að læra ekki of mikið, því ekki vildi ég eiga í útistöðum við kennarann. Þessi vafasama kennsluaðferð þjónaði því tilgangi sínum; þ.e. að letja og draga úr "of duglegum" nemanda.
Þess má svo til gamans geta að þessi ágæti kennari var einmitt systir fyrrnefnds enskukennara, úr síðustu færslu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli