laugardagur, janúar 28, 2006

Fyrstu dagarnir í USA

Það er fyndið að vera komin hingað, til lands sem að ég hef horft á í sjónvarpi og bíó alla mína ævi, en aldrei heimsótt áður. Ég hef svo sem ekki orðið fyrir neinu meiriháttar menningarsjokki, en ég held samt að ég hafi ekki almennilega gert mér grein fyrir því áður að í Amríkunni...þar er allt mjög amerískt. Fólkið er svo amerískt; hvernig það talar, klæðir sig og er í háttum. Maturinn er ótrúlega amerískur og líka húsin, búðirnar, bílarnir, allt.

Annars er ég kannski ekki alveg lent ennþá, ég er enn að átta mig á því að þetta sé allt að gerast. Maður heyrir að svona skiptinemaferðir séu miklar rússíbanareiðir tilfinningalega, og það er víst rétt. Undanfarið hef ég verið á frekar rólegri siglingu. Kannski er það lognið á undan storminum. Kveðjustundin í Leifsstöð var mjög erfið eins og við var að búast. Önni fylgdi mér og það var sárt að þurfa að slíta sig frá honum. En með fyrsta skrefinu í gegnum öryggishliðin var eins og rynni af mér og á ferðalaginu var ég eiginlega hálf tilfinningadofin. Þangað til ég kom á hótelið í Boston og gat ekki hringt. Um leið og ég gekk inn um dyrnar reyndi ég að hringja í Önna, og mömmu og pabba, en ekkert gekk. Þá var eins og þyrmdi yfir mig og mér hefur aldrei áður fundist ég eins einmana og einangruð. En svo komst ég að því að til að ná út fyrir BNA þarf fyrst að stimpla inn 011, svo allt fór vel að lokum.

Nú er þriðja kvöldið mitt hér á campusnum og ég er búin að koma mér sæmilega fyrir. Veðrið í Minnesota hefur verið frábært síðan ég kom; sól, heiðskýrt og blankalogn. Ég sem bjóst við -15° frosti. Campusinn er minni en ég bjóst við, og afskaplega snyrtilegur og fallegur finnst mér. Aðra sögu er að segja um herbergið mitt, því það er ekki beint glæsilegt. Þegar ég gekk fyrst inn í það fannst mér það ótrúlega sjabbí. Sem það er eiginlega, en mér hefur samt tekist að gera það ögn notalegra, eftir að ég bjó um rúmið, setti upp leslampa við það og stillti upp mynd af ömmu. Eftir fyrstu nóttina hér fór ég í Target og keypti alls konar dót sem mig vantaði, m.a. lampann; hárblásara; stóran spegil, herðatré, handklæði ofl. Það kostaði um 3000kr.

Þegar ég var rétt stiginn inn um dyrnar komu nokkrar stelpur sem búa á sömu hæð og buðu mig velkomna. Ég hef tvisvar borðað með þeim kvöldmat síðan. Þær eru ágætar, á sinn ótrúlega ameríska hátt. Hinsvegar þarf ég að venjast því hérna að ég er ekki lengur yngst í hópnum, eins og ég hef verið mestallt mitt líf. Flestir í mínu húsi eru fyrsta árs nemar, sem þýðir að þau eru 17-19 ára. Ég verð að viðurkenna að mér finnst andrúmsloftið á hæðinni minn afskaplega unglingalegt, og þessar stelpur svolitlar gelgjur. Sama má raunar segja um herbergið; það er unglingalegt. Ég held að flestir þessir krakkar hérna séu í skýjunum yfir þessu, enda þeirra fyrsta heimili án foreldranna. En fyrir mig stenst aðstaðan illa samanburð við elsku Freyjugötuna mína.

Meðal annars þess vegna á ég fleira sameiginlegt með hinum skiptinemunum. Við erum ekki mörg sem komum ný núna á vormisseri; það er stelpa frá Úrúgvæ, ein frá Sviss og tvær frá Hollandi, og svo einn strákur frá Kenýu, einn frá Senegal og annar frá Georgíu. Svo hef ég kynnst tveimur sem komu síðasta haust; þýskur strákur og frönsk stelpa. Skiptinemarnir eru flestir á aldrinum 20-24 og við evrópsku stelpurnar erum allar fluttar að heiman. Ég er reyndar að upplifa einhvers konar evrópusamstöðu með þeim, sem ég hef ekki fundið sérstaklega fyrir áður. Við erum að upplifa svipaðan samanburð á menntakerfum hér og heima, tísku og klæðaburði, samskiptum ofl.

Sá skemmtilegi orðrómur virðist vera á kreiki að ég sé ein af tveimur Íslendingum sem stundi nám í Bandaríkjunum. Hingað til hafa tvær manneskjur fullyrt þetta við mig og sagt að þetta hafi staðið í Newsweek. Þar var víst tekið viðtal við einhvern Íslending sem er nemi við Macalaster College hér í nágrenninu, og á hann að hafa sagst vera eini Íslendingurinn við nám í Bandaríkjunum. Mér var því óskað til hamingju með að vera númer tvö. Þetta þykir mér afar sérkennilegt þar sem ég get sjálf talið upp þó nokkra Íslendinga sem eru við nám hér og geri fastlega ráð fyrir að þeir sem ég þekki séu ekki þeir einu.
Annað sem mér fannst fyndið var samtal sem amerísku stelpurnar á hæðinni minni áttu sín á milli í gærkvöldi. Ég fór með þeim að borða á Applebees, sem er svona all-american keðja. Þær sögðu mér að allar bandarískar stelpur öfundi stelpur annars staðar að því þær langi allar að vera útlenskar. En svo bættu þær við:

-"But I guess we should be thankful because....the United States have got like...a higher quality of living than...like...any other country in the world...so...."
-"Well maybe Switserland..."
-"I don’t know...I’d like to say the UK?"
-"No god, not the UK..."

Ég brosti bara í kampinn. Ekki ætla ég að neita því að lífsgæði séu góð í Bandaríkjunum, en ég held ég geti ekki tekið undir það að Bandaríkin skáki öllum öðrum löndum heims hvað það varðar.

Jæja ég vil ekki blogga svo langar færslur að fólk nenni ekki að lesa þær í gegn. Ég ætla annars að reyna að hafa gott upplýsingaflæði frá mér héðan, en ég fæ líklega ekki aðgang að þráðlausa netinu fyrr en eftir helgi. Stay tuned.

Engin ummæli: