miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Stutt að kvöldi til

Nýjar myndir eru komnar á myndasíðuna eins og sést m.a. á linknum sem ég setti upp hérna til hliðar. Þær eru ekki margar né merkilegar en sýna samt nokkurn veginn hvernig er umhorfs hérna hjá mér.
Hverfið hérna í kringum háskólann er svolítið vafasamt á köflum held ég. Allavega öðrum megin við hann. Að vísu er dýrasta íbúðagata bæjarins ekki langt frá á aðra höndina, en í hina áttina býr öllu fátækara fólk held ég. Það má helst áætla út frá því hversu mikið er af lituðu fólki í því hverfi, en tvíburaborgirnar eru annars mjög hvítar tölfræðilega. Auk þess veit ég að í vikunni sem ég kom hingað voru tvær stelpur rændar "at gun point" hérna hinum megin við götuna. (Ekki segja mömmu það, þetta var líka einstakt tilfelli held ég.) Campusinn sjálfur er hinsvegar frekar öruggt svæði held ég. Hér er starfandi öryggisgæsla allan sólarhringinn, maður sér öryggisverðina stundum keyra um á litlum golfbílum, og auk þess eru litlir neyðarsímar hérna út um allt sem maður má hringja úr ef maður óskar eftir fylgd heim til sín í allt að mílu frá campus.

Ég hef haft nóg að gera undanfarna daga við ýmislegt stúss og vesen. Það er þreytandi, en mér finnst samt gott að hafa nóg að gera svo mér leiðist ekki. Á morgun byrjar skólinn síðan loksins og ég verð að segja að ég er orðin mjög spennt og hlakka til að sjá kennarana, kynnast nýju fólki og sjá hvernig þetta virkar allt saman.

Á sunnudaginn kom svo herbergisfélagi minn. Hún er ósköp indæl og vinaleg, mér sýnist á öllu að okkur muni koma ágætlega saman og ekki vera mikið fyrir hvorri annarri. Allir hérna leggja mikla áherslu á að herbergisfélaginn eigi ekki endilega að vera besti vinur þinn, heldur skipti mestu að þér semji við hann. Ég held að það gangi alveg hjá okkur, það er ekki mikil truflun af henni.
Ég varð að vísu pínulítið vonsvikin, á einhvern furðulegan hátt, yfir því hversu stereótýpísk lesbía hún er. Hún er frekar feitlagin og svo er kærastan hennar eins og sterkbyggður hermaður. Mjög karlmannleg. Ég býst við að ég hafi verið að vonast eftir huggulegum stelpum...hljómar það yfirborðskennt? Þær eru allavega mjög stereótýpískar fyrir hina "neikvæðu ímynd" lesbía.
Nú er hún hinsvegar farin að sofa, og ég vil ekki trufla hana með því að hanga lengi í tölvunni. Auk þess er tími klukkan 8:00 í fyrramálið. Meira seinna.

Engin ummæli: