mánudagur, febrúar 06, 2006

Ath. Nýjar myndir komnar á myndasíðuna.

Fleiri partý


Til að fyrirbyggja misskilning langar mig að taka fram að ég hef líka farið í almennileg partý hérna. Á föstudaginn var latínó-partý "at the Spanish House" þar sem ekkert harðara en bjór var haft um hönd, og fólk dansaði salsa af miklum móð. Það var mjög gaman og ég hitti skemmtilegt fólk víða frá Suður-Ameríku, m.a. mexíkóskan strák sem sagði að ég liti út eins og súpermódel. Ánægjulegt sem sagt.

Í dag var svo Superbowl, sem er úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum. Ég var boðin í superbowl partý heim til kærasta Isabelle og kynntist þar nokkrum vinum hans sem útskrifuðust með honum úr Minnesotaháskóla. (Sá skóli er einn sá fjölmennasti í Bandaríkjunum og er þekktur hér um slóðir sem The U.) Leikurinn var nokkuð skemmtilegur, ég hef aldrei horft á amerískan fótbolta áður en tel mig hafa komist ágætlega inn í leikinn. Reglurnar eru nokkuð flóknar og mörgum herkænskubrögðum beitt. Þarna var svo boðið upp á bjór, snakk og brownies, svo þetta var afar amerískt allt saman. Fólkið var vinalegt og skemmtilegt og strákarnir sem skutluðu okkur heim sögðust ætla að bjóða okkur í fleiri amerísk partý og vilja líka endilega fara með okkur á einhvern kínverskan veitingastað sem á víst að vera mjög góður.

Nú er í umræðunni að kíkja á skemmtistaði í Minneapolis næstu helgi. Ég hef vissar efasemdir um hvort ég eigi að taka þátt í því, þar sem að ég telst undir lögaldri hérna. Áfengiskaupaaldurinn er 21.árs, svo ég þarf að bíða þangað til í apríl. Ólíkt Íslandi þá er alltaf spurt um skilríki hérna og þeir eru víst mjög strangir á þessu. Það er pirrandi að vera allt í einu svipt réttinum til að kaupa mér áfengi, eftir að hafa getað gert það í nokkur ár án vandræða. Þrátt fyrir að ég sé almennt ekki mikið fyrir skemmtistaði þá langar mig samt að kíkja út á lífið hérna, en ég vil ekki vera byrði á stelpunum ef að ég kemst ekki inn. Ætli ég láti því ekki bara af ólifnaðinum og lesi bænirnar mínar heima fyrir í staðinn. Annað hvort það, eða þá að reykja gras uppi í koju með hinum krökkunum sem eru undir lögaldri.

Engin ummæli: