sunnudagur, febrúar 05, 2006

Pakk

Úff, ég er rétt sloppin úr einu skelfilegasta partýi sem ég hef nokkurn tíma sótt. Partýhaldararnir voru hópur Georgíumanna (as in lýðveldið Georgía) en bróðurhluti partýgesta voru bandaríkjamenn í vímu. Fyrst fannst mér þetta bara fyndið og áhugavert, en eftir fyrsta klukkutímann var ég komin með nóg og langaði burt. Ég vildi hinsvegar ekki labba ein heim, þar sem okkur er ráðlegt að vera ekki á ferð ein eftir myrkur. Þá varð ég fyrir vonbrigðum með nýju vini mína, það kom mér á óvart hversu lengi þær vildu hanga í þessu ógeðslega partýi. Húsið sjálft var ótrúlega sjabbí og óhreint, svo jafnvel herbergið mitt á campus virkar sem lúxusíbúð í samanburði. Meirihlutinn af liðinu þarna var mjög vafasamur lýður sem ég treysti ekki. Þess vegna vildi ég ekki fara úr jakkanum og skilja hann eftir einhvers staðar þarna. Töluvert var um kannabisreykingar þarna, en auk þess var "bar" í kjallaranum, (tréborð á hvolfi ofan á gömlum þurrkara) þar sem fólk gat keypt bjór eða heimatilbúinn, georgískan vodka (lesist: landa) fyrir einn dollara. Í einu herberginu lág fólk hálfandvana í hassvímu, en í stofunni á jarðhæðinni var dansað við gangsta-rapp. Stofuveggurinn var skreyttur með sjálflýsandi, appelsínugulu graffítikroti, og eina húsgagnið í stofunni, sófinn, var þéttsetinn af pörum slefandi upp í hvort annað.

Í stuttu máli þá átti ég engan veginn heima í þessu partýi og kærði mig ekki um að umgangast þetta lið. Nú líð ég hinsvegar fyrir það að hafa ekki sama sjálfstæði og ég er vön. Ég treysti mér ekki til að vera ein á ferð úti, bæði þar sem ég er ekki nógu kunnug hérna auk þess sem það er bara ekki skynsamlegt. Þess vegna þurfti ég að hanga þarna fram eftir öllu.
Mér er því mjög létt núna að vera kominn inn í blessað herbergið mitt. Herbergisfélagi minn er fjarverandi yfir helgi og ég fæ því að vera í friði með elsku fartölvuna mína, sem er er það heimilislegasta sem ég á núna. Mikið er ég fegin að vera með tölvuna með mér, það er sama hvar ég er, tölvan er það sem helst gefur mér þá tilfinningu að ég sé "heima." Jafnframt er mér farið að þykja mjög vænt um rúmið mitt, þrátt fyrir hvað ég var vonsvikin fyrst með þessa semí-koju. Mín helsta afslöppun er að leggjast upp í rúm með fartölvuna og headphones og hlusta á tónlistina mína, oftar en ekki íslenska tónlist.

Ég hef haft mikla þörf fyrir að hlusta á íslenska tónlist þessa fyrstu vikur hérna í Bandaríkjunum. Einhvern veginn er það svo að sú staðreynd að ég er Íslendingur miklu stærri hluti af mínu ídentíteti hérna úti en ég gerði ráð fyrir. Ekki vegna þess hvernig aðrir sjá mig, heldur hvernig ég sé sjálfa mig. Þótt ég sé orðin þreytt á því að þurfa sífellt að svara sömu spurningunum um Ísland.

Á kvöldin fæ ég oft mikla þörf fyrir að spjalla við Önna eins og ég er vön að gera fyrir svefninn, eða einhvern annan heima. Tímamismunurinn er mér hinsvegar ekki í hag, þar sem Ísland er 6 klst. á undan mér og flestir því í fastasvefni heima. Í staðinn læt ég mér nægja að slaka á yfir tónlist. Núna er ég reyndar búin að skipta úr því íslenska yfir í Radiohead, sem verða alltaf uppáhaldið mitt. Gotta lof ðat þunglyndisrokk.

Nú er ég farin að sofa, þakklát fyrir að hafa sloppið lifandi úr þessu skelfilega ó-intellektjúala lágklassapartýi. Megi það aldrei endurtaka sig.

Engin ummæli: