mánudagur, febrúar 20, 2006

Forræðishyggja á February Formal

Á laugardaginn fór ég á ball á vegum skólans, nokkurs konar árshátíð, sem kallaðist February Formal. Það var skemmtileg upplifun, sem gæti mögulega kallast menningarsjokk. Þarna var allavega eitt og annað sem kom mér á óvart.

Ballið var haldið á Hyatt hótelinu í miðborg Minneapolis og hófst með kvöldverði. Fyrsta sýn lofaði því góðu og við stelpurnar vorum ánægðar með að komast út fyrir mötuneytið. Hinsvegar kom í ljós að kvöldverðurinn var ekki mjög vinsæll; af þeim 700 sem mættu á ballið fóru um 50 í matinn. Trúlega er ástæðan sú að stór hluti ballgesta var undir lögaldri, og kusu því að vera heima að hella sig full frekar en að borða kvöldmat.

Mér kom fyrst og fremst á óvart hversu ófágaður kvöldverðurinn var. Þegar við mættum var reyndar búið að leggja fínt á borð, og setja forréttardiska með salati. Við settumst niður og biðum eftir að máltíðin hefðist formlega, en tókum svo eftir því að á borðunum í kring byrjuðu allir að borða jafnóðum og þeir settust niður. Við hóuðum í þjón og spurðum hvort við gætum pantað okkur drykki, en var sagt að ekki væri boðið upp á annað en vatn, mjólk, kaffi eða te. Okkur sem langaði í vínflösku með matnum. Við ákváðum samt að byrja að borða, þrátt fyrir að enginn hafi formlega boðið okkur velkomin, sagt gjörið svo vel eða neitt í þá áttina. Það furðulegasta var að enginn tónlist var spiluð yfir matnum, heldur var svo algjör þögn að maður heyrði óþægilega mikið í loftræstikerfinu og glamrinu í hnífapörunum. Við spurðum meira að segja þjóninn hvor nokkuð væri hægt að spila dinner tónlist, en það stóð ekki til boða.

Annað sem fór í taugarnar á mér var hraðinn á kvöldverðinum. Um leið og ein manneskja við borðið lauk forréttinum mætti þjóninn, tók diskinn og kom með næsta rétt. Ekki var beðið eftir að hinir lykju sér af svo máltíðin væri samhæfð (það hefði ekki verið erfitt, við vorum bara 6 við borðið). Þetta pirraði okkur svo að við báðum sérstaklega um að fá eftirréttinn ekki strax, og fengum okkur kaffi í millitíðinni til að slaka aðeins á. Þannig voru allir umhverfis okkur löngu búnir og farnir þegar við kláruðum á endanum. Þess má svo geta að aðalrétturinn var kjúklingabringa með kartöflustöppu.

Svo hófst ballið og þar var eitt og annað sem ég veitti athygli. Í fyrsta lagi klæðaburður stelpnanna. Maður sá nú eina og eina huggulega inn á milli, en almennt voru þær í skósíðum prom-kjólum með glimmeri, í æpandi skærum litum. Við kjólana klæddust ótrúlega margar flatbotna plastsandölum, svona eins og maður fer í á ströndina. Að auki mættu þær margar í stórum skíðaúlpum yfir kjólana. Þetta þótti okkur snobbuðu evrópu-hrokagikkjunum óskaplega fyndið.

Eftir að hafa skimað dansgólfið hófst leitin að barnum. Hann fannst að lokum, og reyndist vera svæði úti í horni, afmarkað með borðum sem raðað hafði verið upp. Aðeins var einn inngangur og við hann stóð lögreglumaður, einn af fimm sem vöktuðu ballið, og skoðað skilríki. Enginn yngri en 21 árs mátti fara inn og þau sem fengu inngöngu urðu að klára drykkina sína þarna úti í horni áður en þau sneru til baka. Auk þess fengu þau armband þar sem merkt var við í hvert skipti sem áfengi var keypt, og máttu þau bara kaupa sér þrjá drykki á milli 21-22, tvo á milli 22-23 og einn á milli 23-24. Ballinu lauk á miðnætti. Þetta þótti mér fyndið en þó pirrandi um leið. Mér finnst óþolandi þegar reynt er að hafa svona vit fyrir mér og komið fram við mann eins og smákrakka. Afleiðingar þessarar forræðishyggju eru svo að jafnaldrar mínir hérna umgangast áfengi ennþá eins og busar í menntaskóla; það er forboðið og spennandi og þeim er tíðrætt um hversu ógeðslega full þau eru.
En ég ákvað nú samt að láta þessa reglufestu ekki trufl
a mig og skemmti mér þrátt fyrir allt ágætlega þetta kvöld.

Engin ummæli: