Tunga
Í gær sat ég með nokkrum bandarískum stelpum yfir kaffibolla í Klas Center. Tilefnið var heimsókn væntanlegra nemenda við skólann, þ.e. high-school nemenda sem hyggja á nám við Hamline næsta haust. Herbergisfélagi minn ásamt nokkrum kunningjum hennar tóku að sér að fræða gesti um háskólalífið og hýsa þá eina nótt í herbergjum sínum á campus.
Talið barst að kínverskukúrs sem herbergisfélagi minn skráði sig í síðasta haust, en gafst fljótlega upp á þar sem henni þótt hann of krefjandi. Vinkona hennar við borðið sagði þá:
"Yes, I've heard that Chinese is, like, the second hardest language to learn in the world...after English."
Say whaaat? Ég sagði nú ekkert við þessu, en hugsaði mitt. Í fyrsta lagi; hefur hún undir höndum staðlaðan lista yfir heimsins erfiðustu tungumál? Og í öðru lagi; hvað rökstyður þá hugmynd að enska sé allra mála erfiðust? Til gamans gúglaði ég "world's most difficult language" og fór reyndar þannig inn á síðu þar sem sagði:
Why am I so interested in American English? Because it's the world's most difficult language, considering the level of difficulty of mastering pronunciation and spelling. The second most difficult language is Chinese. If you can master English, you can master anything!
Með Google má hinsvegar líka finna eftirfarandi:
-Arabic is widely considered one of the most difficult languages to deal with in a localization context...
-Polish is often said to be one of the most difficult languages for non-native speakers to learn.
-Of course, Russian is one of the most difficult languages...
-The world's most difficult language is Japanese
-French is usually considered as one of the most difficult languages in the world
-And that's why finnish is one of the world's most difficult language
-...my lessons in Slovak, apparently the world's most difficult language
-The world's most difficult language is Basque
-Roumanian as the world's most difficult Language
-...touching upon the world's most difficult language (Hungarian)
Greinilega deildar meiningar. Af eigin reynslu veit ég líka að Íslendingar vilja gjarnan telja íslensku til flóknustu tungumála heims. Ekki veit ég hvernig nákvæmlega erfiðleikastig tungumála er mælt, en þar hljóta nokkrar breytur að koma til sögunnar. Það skiptir auðvitað máli hvaða önnur tungumál viðkomandi kann. Manneskja hvers móðurmál er germanskt á auðveldara með að læra önnur germönsk tungumál heldur en t.d. manneskja sem talar ekki einu sinni indó-evrópskt tungumál. Eina leiðin til að mæla raunverulega erfiðleikaleikastigið væri þá að nota manneskju sem talar engin tungumál yfir höfuð. Það væri samt aldrei áreiðanlegt (fyrir utan að vera ómögulegt) vegna þess að eftir því sem þú lærir fleiri tungumál verður auðveldara að nema það næsta.
Menningarleg áhrif og útbreiðsla tungumálsins vegur líka þungt. Enska er að ýmsu leyti auðveld fyrir mig vegna þess að ég þekki vel til menningar enskumælandi landa, fyrir utan auðvitað að hafa haft greiðan aðgang að enskumælandi afþreyingu alla mína ævi. Enskan getur því virst mér auðveld þótt öðrum finnist hún meira framandi.
Að þessu sögðu þá er ég nú samt á því að telja megi sum tungumál í grunninn flóknari en önnur, það liggur eiginlega í augum uppi. Íslenska hlýtur að teljast málfræðilega flóknari en enska, rétt eins og önnur tungumál sem notast enn við fallbeygingu og kynjaskiptingu t.d. Enskan má þó eiga það að orðaforðinn er mikill og stök orð geta haft mjög margþætta merkingu, auk þess sem framburður getur verið breytilegur. Ensk orð eru líka ekki sérlega gagnsæ og stafsetningin getur verið snúin, en latínukunnátta hjálpar samt t.d. heilmikið þar upp á.
Allavega. Svo ég snúi mér aftur að kaffibollastelpunum. Þessari áhugaverðu fullyrðingu um enska tungu fylgdu fleiri vangaveltur. Ein stelpan tók undir þetta og nefndi að jú enskan hefði svo margt erfitt eins og t.d. "all the you and your and...its and it's and, yeah..."
Önnur hélt þó að hún hefði heyrt að til væri eitthvað tungumál sem að væri bara talað en ekki skrifað (!) og að það væri víst geðveikt erfitt. Sú fyrsta gaf þó ekki eftir og fullyrti aftur að hún héldi samt að kínverska væri næsterfiðasta tungumálið, á eftir ensku.
Þá missti ég þolinmæðina og ákvað að slá aðeins um mig.
"Ja, ég verð nú að segja, að af þeim sex tungumálum sem ÉG hef lært, þá finnst mér enskan einna auðveldust. Sérstaklega málfræðilega."
Ókei, vissulega tala ég ekki sex tungumál reiprennandi, en ég hef nú samt sem áður lagt stund á sex tungumál. Þar með náði ég að stinga ofan í þær, því ekki andmæltu þær, með öðru en "Oh, really...?" Í framhaldinu hefði ég gjarnan viljað taka sýnikennslu í íslenskri málfræði, en einhvern veginn virtist ekki vera stemning fyrir því.
Skemmtilegur fróðleiksmoli að lokum. Samkvæmt Heimsmetabók Guinnes er orð nokkurt, sem til er innan spænskrar mállýsku í Argentínu og Chile, talið vera það orð heimsins sem hefur samþjöppuðustu merkinguna. Þetta er sögnin mamihlapinatapai og merking hennar er nokkurn veginn þessi;
"Að líta hvort á annað í þeirri von að hin manneskjan hafi frumkvæði að því sem löngun beggja stendur til, en hvorugt er viljugt til að gera."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli