Fyrstu kynni af skólanum
Nú er ég búin að mæta í fyrstu kennslustundirnar. Meginbreytingin frá Háskóla Íslands er að hér eru þeir ekki sérlega hrifnir af kennslu á fyrirlestrarformi. Langflestar kennslustundir fara þannig fram að nemendur sitja í hring og taka virkan þátt í umræðum í tímum. Vegna þessa eru líka sett fjöldatakmörk á þátttöku í tímum, og nemendur þurfa því að vera fljótir að skrá sig til að lenda ekki á biðlista. Mér sýnist að hámarksfjöldi sé yfirleitt 25-30 manns. Mér líst ágætlega á þetta fyrirkomulag, það þýðir m.a. að erfiðara verður fyrir mig að hverfa í fjöldann, sem er gott. Að sama skapi held ég að þetta hljóti að krefjast meira af nemendum; maður verður að vera búin að lesa fyrir fram (heima les ég yfirleitt ekki fyrr en eftir tímann) til að geta tekið þátt, og yfirleitt eru um 10% af lokaeinkunn tileinkuð virkni í tímum. Auk þess eru alltaf einhver verkefni og ritgerðir, og þótt það eigi líka við um HÍ þá sýnist mér vera meira um það hér.
Fyrsti tíminn sem ég sótti, kl.8 á mánudagsmorgni, var American Literature. Það var fyrst og fremst áhugavert fyrir þær sakir að kennarinn tilheyrði (a.m.k.) tveimur minnihlutahópum; hann var svartur hommi. Ég hef hinsvegar ákveðið að skrá mig úr þessum kúrsi, þótt kennarinn sé skemmtilegur, vegna þess annars vegar að ég las hluta af efninu í Amerískum bókmenntum í fyrra, og hinsvegar vegna þess að magnið af ritgerðum og verkefnum er svo geðveikislegt að ég nenni því bara ekki. (Jújú, ég er hér til að læra, en líka til að skemmta mér.)
Í staðinn skráði ég mig í kúrsinn Sex and Sexuality og ég er nokkuð sátt við þau skipti. Að vísu var eitthvað óvíst hvort ég fengi inngöngu fyrst, þar sem ég stenst ekki forkröfur (kynjafræði) en ég náði að sannfæra kennarann með því að tala lítillega um heimspekileg forspjallsvísindi, feminísk fræði og Simone de Beauvoir. Mér sýnist á öllu að þetta verði mjög opinskár og áhugaverður kúrs. Í fyrsta tímanum lét kennarinn okkur brjóta ísinn með því að ganga um bekkinn með spurningablað og fylla út svör frá hinum nemendunum. Þar voru meðal annars spurningar eins og:
Hefur þú einhvern tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni/nauðgun?
Vissir þú í "high school" að konur fengju fyrst og fremst fullnægingu vegna snípsörvunar?
Lærðir þú um kynlíf í gegnum klámmyndir?
og ein sú skemmtilegasta að mínu mati:
Stóðst þú lengi í þeirri trú að öll typpi væru umskorin?
Þó nokkrir gátu kvittað undir þetta, sem mér fannst skemmtilegt. Fleira sem gerir þennan kúrs áhugaverðan er að okkur er boðið í hópferð í leikhús í Minneapolis á sýninguna Sex Diary of an Infidel. Síðast en ekki síst ber mér að starfa sem sjálfboðaliði á einhverri stofnun í tvíburaborgunum sem tengist á einhvern hátt kynferðismálum; s.s. kynsjúkdómaklíník, neyðarmóttöku fyrir kynferðisfórnarlömb o.s.frv. Þetta gæti orðið eitthvað hræðilegt, eða frábært, en hvort heldur sem er verður það allavega lífsreynsla.
Núna í morgun var það svo kúrsinn Communication Theory, sem mér líst ágætlega á. (Í fyrsta tímanum var komið inn á ýmislegt sem ég kannast við eftir málvísindalærdóminn) Síðasti kúrsinn sem ég skráði mig í kallast Special Topics in Journalism og hann byrjar ekki fyrr en í næstu viku. Ég er hinsvegar mjög spennt fyrir þeim kúrs og hlakka til að sjá hvernig hann verður.
Í heildina er ég því afskaplega kát yfir þessu öllu saman. Ég hef nóg fyrir stafni og ennþá er allavega allt mjög spennandi. Helgin er fullbókuð frá upphafi til enda, en næsta mánudag hefst hversdagsleikinn fyrir alvöru með fyrstu, heilu skólavikunni. Þá er spurning hvort að nýjabrumið fer af eða ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli