Lífsháski
Fyrr í kvöld var ég næstum orðin fyrir bíl. Við stelpurnar fórum í bíó að sjá Walk the Line. Eftir myndina þurftum við að fara yfir götu til að ná strætó, og okkur sýndist að við værum að missa af honum svo við fórum yfir þótt græni kallinn væri ekki kominn. Það var hvort eð er enginn bíll á leiðinni, bara einn sem var kyrrstæður á beygjuakrein. Nema hvað, þegar við erum komnar út á miðja götu er eins og hann hætti við að bíða eftir beygjuljósinu og beygir inn á akreinina sem liggur beint áfram. Svo gefur hann í beint í áttina að mér, en ég var öftust. Mér hefur sjaldan brugðið jafnmikið, það var í alvöru eins og hann ætlaði viljandi að keyra mig niður, því hann sá mig án nokkurs vafa, en ákvað samt að hægja ekki á sér heldur auka hraðann. Ég hljóp upp á gangstétt, en ef ég hefði haldið sama hraða og ég var á hefði hann keyrt á mig. Þegar ég leit við náði ég augnsambandi við bílstjórann og hann starði beint á mig. Ég veit ekki alveg hvað hann ætlaði sér. Á hlaupunum rifnaði plastpoki sem ég hélt á, en í honum var ferðahandbók um Californiu sem ég hafði nýkeypt og hún skall á götuna. Tætingurinn á kilinum mun verða til minningar um þessa svaðilför.
Walk the Line er annars frábær mynd sem ég mæli með. Reese Witherspoon kom mér skemmtilega á óvart og Joaquin Phoenix er sjarmerandi sem aldrei fyrr. Þetta er mynd sem lætur manni líða vel í hjartanu.
Ps. Nýjar myndir eru komnar á myndasíðuna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli