föstudagur, mars 17, 2006

Daglegt líf

Undanfarna daga hef ég einhvern veginn ekki verið í miklu bloggstuði, enda ekki mikið um að vera í höfðinu á mér annað en námið. Nú hefur hinsvegar öllu verið reddað svona eins og völ var á og vorhléð má því formlega hefjast eftir kennslustundina á morgun. En fyrst ég er nú í útlöndum þá ætla ég að hafa þann stílinn á að rekja stuttlega mína daglegu starfa.

Snow Day

Alnáttungurinn sem ég bloggaði um síðast lukkaðist óvenju vel og reyndist vera mikið söksess. Mig syfjaði aldrei neitt sérstaklega og tókst að skrifa samtals ca.15 blaðsíður og ljúka þar með báðum verkefnunum. Þetta reyndist þó til lítils, því þegar ég mætti ósofin í morgunmat frétti ég að skólanum væri aflýst þann daginn vegna ofankomu. Um nóttina hafði ég fylgst með snjónum kyngja niður og það kom mér á óvart því vikuna á undan hafði verið rjómablíða; um 15 stiga hiti og stuttermaveður. Mig grunaði þó ekki að snjórinn hefði neinar afleiðingar í för með sér, enda var þetta svona týpísk þung snjókoma sem maður upplifir allavega einu sinni hvern vetur heima. Hinsvegar var þetta víst mesti "snow storm" í Minneapolis í 15 ár, og önnur hver stofnun því lokuð í framhaldinu.

Pervertar

Síðan ég kom hingað hefur nemendum borist a.m.k. 3 tilkynningar frá Safety & Security um vafasama menn og perverta sem eru á ferð um campus. Einn þeirra áreitti stelpur og gekk í veg fyrir þær snemma á fimmtudagsmorgni og annar var að fróa sér á almannafæri. Jantien og Hil-May voru svo heppnar að lenda í þeim þriðja. Þær voru á leið inn á campus þegar ókunnur maður kallar til þeirra. Þegar þær snúa sér við þá tekur hann niður um sig buxurnar og eltir þær svo nokkurn spöl með buxurnar niður um sig þar til þær komast inn fyrir. Alveg er þetta furðulegt lið sem hefur þessar hvatir, og mér þykir tíðni þessara pervertaheimsókna skuggaleg há á campus. Ekki öfunda ég stelpurnar í St.Kates, en það er kaþólskur kvennaskóli hérna í nágrenninu, sem verður víst sérstaklega oft fyrir barðinu á þessum viðrinum.

Matartími

Sú venja hefur komist á meðal okkar alþjóðlegu nemanna að borða yfirleitt kvöldmat saman í Sorin mötuneytinu. Þetta voru svo sem engin samantekin ráð, heldur gerðist af sjálfu sér, vegna þess að flestir amerísku krakkarnir borða kvöldmat um fimmleytið (matartíminn er frá 16:30-19:15) og þegar við mætum loks í kvöldmat, um hálfsjö, þá er matsalurinn yfirleitt hálftómur. Mér þykir sérkennilegt að borða alltaf svona snemma, enda hefur mér líka sýnst að margir fái sér svo snarl aftur um tíuleytið á kvöldin. Við alþjóðlegu kverúlantarnir kjósum hinsvegar að borða kvöldmat "seint", það er um sjöleytið, og vegna þess hvað við erum óskaplega skemmtileg þá eigum við það til að hanga fram eftir öllu yfir matnum á spjallinu. Þetta endar yfirleitt á því að starfsfólk mötuneytisins biður okkur vinsamlegast um að pilla okkur, þar sem þau ætli að loka salnum. Við erum því kannski ekki efst á vinsældalistanum hjá þeim, en mér finnst kvöldmatartímarnir alltaf sérstaklega ánægjulegir.

Hroki og hleypidómar

Við Elise höfum dundað okkur við það undanfarið að horfa á BBC útgáfuna af Pride and Prejudice á kvöldin. Við komums nefnilega snemma að því að við deilum áhuga á P&P og erum báðar miklir og einlægir aðdáendur Colin Firth. Reyndar eigum við fleira sameiginlegt, því Elise er líka forfallinn Harry Potter aðdáandi. Hún er skemmtileg stelpa.

Jæja eftir 12 klst. legg ég af stað í 24klst keyrslu til Arizóna. Ég hlakka til þessa ferðalags, því ég er viss um að þótt ég verði örugglega þreytt og pirruð á köflum, þá mun þetta verða eftirminnileg ferð. Ég ætti því að blogga aftur eftir rúma viku og birti þá vonandi einhverjar myndir úr Grand Canyon.

Engin ummæli: