mánudagur, mars 20, 2006

A Series of Unfortunate Events

Þetta verður í síðasta skipti sem ég minnist á Grand Canyon hérna enda er ég komin með ógeð á tilhugsuninni um það. Í stuttu máli var ferðinni sem sagt aflýst vegna bílavandræða og vesens. Mikil vonbrigði en lítið við því að gera.
Þá tók við langtímaseta yfir pælingum um hvað væri hægt að gera í staðinn. Það er erfitt að koma sér saman um eitthvað með svona stuttum fyrirvara, í hópi af fólki sem hefur ólíkar langanir og getu. Sumir hafa ekki nógu mikinn pening, aðrir hafa þegar farið alla staðina sem hinir vilja sjá osfrv. Í nokkra stund leit út fyrir að við færum fimm saman til New York en svo var þrefað fram og til baka og niðurstaðan er sú að við Pablo förum bara tvö til New York. Elise og Jantien fara til Las Vegas. Ég íhugaði að fara með þeim, en hinsvegar ætlum við Önni að fara þangað í maí, auk þess sem það er lítið gaman fyrir mig að fara þangað núna þar sem ég er "undir lögaldri", svo Las Vegas býður ekki upp á marga góða kosti fyrir mig. Jennifer er líklega að fara til Jersey að heimsækja skyldmenni og mun kannski hitta okkur Pablo í New York hluta úr ferðinni.

Mér líður mjög skringilega yfir þessu öllu saman. Þetta var algjör skyndiákvörðun, miðaverðið var sífellt að breytast og hækka, frá 260$ í gær upp í 339$ í dag. Við drifum því í að kaupa miða og ekki kom í ljós fyrr en eftir að ég hafði staðfest kaupin, að Jennifer og Jonathan yrðu ekki með í för.
Auðvitað er spennandi að fara til New York, en ég hafði reyndar ætlað að fara þangað hvort eð er í apríl, í algjöra Sex&the City stelpuferð. Það verður víst ekkert úr því núna held ég, og þessi ferð verður allt annars eðlis þar sem við Pablo erum bara tvö. Hann er afskaplega góður og rólegur strákur og okkur kemur vel saman, en mér finnst samt skrýtið að fara ein með honum til New York. Ég hefði frekar viljað fara með stelpunum í apríl, þá væri ég öruggari um að ferðafélagar mínir vildu gera og sjá sömu hluti og ég. Auk þess vildi ég frekar fara núna heldur en að gera ekkert í vorhléinu.

Ég er því pínulítið stressuð yfir því hvernig þetta verður allt saman, en að sjálfsögðu spennt líka. Það verður frábært að skoða New York, og það besta er að ég slepp við allan hótelkostnað þar sem við fáum ókeypis gistingu hjá frænku Pablo.
Ég vildi samt óska að ég væri að fara þessa ferð með Önna. Af gefinni reynslu veit ég hvað við erum góðir ferðafélagar og harmónerum vel saman, sem er góður kostur á ferðalögum.
Nú, en ég flýg sem sagt til New York eftir 9klst og ætti því að drífa mig í að pakka og reyna svo að fá smá svefn.

Engin ummæli: