Miðnæturblogg
Ég er í mjög góðu skapi núna. Fyrir því eru þrjár meginástæður:
1) Herbergisfélagi minn er fjarverandi í nótt.
-Okkur Johnönnu kemur mjög vel saman og ég kann ágætlega við hana. Við spjöllum oft um ýmislegt og erum sjaldan fyrir hvor annarri, förum á svipuðum tíma í bælið og svona. Samt sem áður vona ég alltaf, í hvert skipti sem ég geng í átt að herberginu mínu, að hurðin sé læst, sem þýðir að hún er fjarverandi. Þótt hún sé ágæt þá kann ég alltaf betur við að hafa herbergið út af fyrir mig í friði.
2) Ég fékk góða umsögn frá kennara.
-Í kvöld fékk ég fyrsta verkefnið mitt til baka. Þetta var í kúrsinum Special Topics in Journalism, og verkefnið var grein um Al Ousseynou, skólafélaga minn frá Senegal, en ég átti að taka viðtal við hann og tvo aðra heimildamenn og vinna grein upp úr því. Kennarinn kommentaði m.a. að leiðarinn minn væri "really solid", efnistökin væru "good stuff" og aðalumjöllunin "good" og "very interesting". Heildarumsögnin var "You've got a high standard". Ég er mjög ánægð með þetta fyrsta fídbakk sem ég fæ og vona að það sé ávísun á frekari námsárangur hérna.
3) Líf mitt er fullt af góðu fólki
-Áðan var ég á bókasafninu að læra með Pablo og Elise þegar ég áttaði mig allt í einu á því hvað mér þykir vænt um þessa nýju vini mína. Stundum fyllist ég hamingju þegar ég er umkringd vinum, horfi í kringum mig og hugsa um hversu mikils virði þeir eru mér. Ég er þakklát fyrir að hafa hitt svona mikið af góðu fólki um ævina og fyrir að kynnast sífellt fleirum. Það er líka ánægjulegt og styrkjandi að finna hversu mikið er til af góðum, skynsömum og heilsteyptum manneskjum hvert sem maður fer, allstaðar að úr heiminum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli