Vonbrigði
Nú, tæpum sólarhring eftir að ég skrifaði síðustu færslu, er ég ekki alveg jafn hress. Spring Break er eftir 2 vikur og ég er planlaus. Ég hafði bundið miklar vonir við hópferð sem "útivistarklúbburinn" hérna í skólanum planar til Arizona. Ég var orðin mjög spennt fyrir því að fara, en þetta er útilega í Grand Canyon og þjóðgarðinum í kring þar sem farið verður í göngur og river rafting. Ekkert girls-gone-wild, heldur einmitt það sem mér þætti gaman, og auk þess eitthvað sem ég mun líklega aldrei gera undir öðrum kringumstæðum. Ég var líka ánægð með að fara út á land að njóta náttúrunnar, því mig langar að sjá meira af Bandaríkjunum en bara borgirnar.
Nú var ég hinsvegar að fá ímeil sem sagði að fullbókað væri í ferðina og ég kæmist ekki með. Þetta er mjög svekkjandi í alla staði. Mér finnst líka illa staðið að þessu. Í fyrsta lagi þá komast bara 8 manns með í þessa ferð. Mér finnst sérkennilegt að skipuleggja ekki ferð fyrir stærri hóp, Ferðafélagið í MR t.d. gerði alltaf ráð fyrir fleiri þátttakendum en þetta. Í öðru lagi var í upphafi sent ímeil sem greindi frá þessari hugmyn, en það barst bara til sumra nemenda í skólanum, t.d. ekki til mín og Elise, við heyrðum af þessu frá öðrum. Tveimur vikum seinna var sent annað ímeil þar sem boðað var til fundar um ferðina. Það barst til mín klukkutíma eftir að fundurinn var haldinn, en ég hefði reyndar hvort eð er ekki getað mætt þar sem ég þurfti að mæta í sjálfboðavinnuna fyrir Sex and Sexuality á sama tíma.
Elise fór hinsvegar og ætlaði að taka allar upplýsingar fyrir mig. Hún sagði mér svo í hádegismatnum að aðeins 8 manns kæmu með, svo ég sendi þá strax ímeil til að lýsa yfir áhuga mínum á ferðinni. Sólarhring seinna fékk ég svar sem sagði að þar sem ég hefði ekki mætt á fundinn væri ég of sein og ekkert pláss laust fyrir mig.
Eftir að ég hafði sent ímeilið með ósk um þátttöku hvatti ég Pablo til að gera það sama sem fyrst, svo hann sendi seinna um daginn á eftir mér. Honum var hinsvegar hleypt með í ferðina, vegna þess að hann er strákur, og bara einn annar strákur hafði þegar skráð sig. Sá strákur er kærasti stelpunnar sem skipuleggur þetta. Kannski var hann hræddur við að vera einn innan um allar þessar stelpur og bað hana því um að taka Pablo með frekar en mig. Ætli ég sé því ekki fórnarlamb jákvæðrar mismununar.
Niðurstaðan er sem sagt sú að Pablo og Elise eru skráð í Arizona ferðina. Hilmay ætlar til Chicago með kærastanum sínum, sem flýgur hingað frá Hollandi í heimsókn. Jennifer ætlar líka til Chicago, að heimsækja vinkonu sína sem býr þar. Isabelle ætlar að vera í Minneapolis heima hjá Bandaríska kærastanum sínum. Þá erum við Jantien eftir planlausar, en hún ætlar samt kannski að fara í einhverja djammferð með (21+) vinkonu sinni.
Ég veit að ekki er öll von úti enn og líklega á allt eftir að reddast á endanum, vonandi. En í augnablikinu er ég mjög áhyggjufull og vonsvikin yfir þessu öllu saman. Ég hlakkaði svo til að ferðast eitthvað í vorhléinu, og hafði fyrirfram gert ráð fyrir að geta valið úr einhverjum hópferðum. En það er bara þessi eina hópferð sem er skipulögð, og mér finnst ekki einu sinni þess virði að auglýsa hana, fyrir bara 8 þátttakendur.
Mér finnst ég vera svo umkomulaus eitthvað og ég þoli það ekki. Nú er einn mánuður búinn af fjórum hérna í Bandaríkjunum og í þessari niðursveiflu sem ég er í núna finnst mér hann ekki hafa verið nógu vel heppnaður. Mér finnst ég ekki hafa gert nógu mikið, ekki hafa skoðað mig nógu mikið um. Og mér finnst skólinn þvælast fyrir mér með þessum helvítis verkefnum og hópvinnum alltaf hreint. Ég er vön því að fara til útlanda sem túristi og skoða allt sem vert er að skoða á viku, en ég ekki verið mjög afkastamikil í að rannsaka umhverfi mitt á þessum mánuði og það fer í taugarnar á mér. Og svo er ég að fara í próf í fyrramálið og ég nenni því svo innilega ekki.
Jæja það var gott að pústa, á morgun líður mér eflaust betur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli