miðvikudagur, mars 29, 2006

New York


New York er stór og mikil borg. Og skemmtileg. Og lífleg. Þar eyddi ég sex dögum og ég veit fyrir víst að þangað mun ég fara aftur fyrr eða síðar. Mikið er ég nú fegin að ég tók þá ákvörðun að fara þangað, ferðin var afskaplega vel heppnuð og ég hefði ekki viljað snúa aftur til Íslands án þess að hafa heimsótt New York.

Pablo reyndist vera frábær ferðafélagi og kom okkur mjög vel saman. Fyrirfram bjóst ég við því að við myndum líklega skiljast að allavega hluta ferðarinnar, ef okkur langaði til að gera ólíka hluti. En við skemmtum okkur vel saman og fylgdumst því að allan tímann. Sá misskilningur virðist reyndar hafa komið upp, í kommentakerfinu hér að neðan, að Pablo sé samkynhneigður, en sú er ekki raunin.
Eins og ég hef áður sagt þá fengum við gistingu hjá frænku Pablo, sem býr í Bronx. Hún reyndist vera afar litríkur karakter; talaði takmarkaða ensku en bætti upp fyrir það með því að tala nokkurn veginn stanslaust á spænsku með skerandi rödd og hlátursrokum, ekki ósvipað Fran Drescher í The Nanny.

Íbúðina höfðum við útaf fyrir okkur þar sem frænkan var sjálf að passa annað hús þessa vikuna, og fengum við því að mestu leyti að vera í friði. Þaðan þurftum við að taka strætó í ca.5 mínútur á næstu lestarstöð, þar sem við tókum eina lest beinustu leið niður á Manhattan. Þetta var um 45mín – klst. Ferðalag dags daglega, en mér fannst það ekki koma að sök. Við nýttum ferðatímann til að skipuleggja daginn og ræða um alla heima og geima, auk þess sem það var vel þess virði að fá ókeypis gistingu enda eru hótel í New York dýr.

Við lentum á JFK snemma á mánudagsmorgni og fórum þaðan beint niður í bæ. Ég var yfir mig spennt þegar ég sá skýjakljúfana nálgast og fannst hálfótrúlegt að ég væri raunverulega komin til New York. Við byrjuðum á því að fá okkur kaffi en héldum svo beint út að Frelsisstyttunni, sem mér fannst vera tilvalin sem fyrsti áfangastaður í ferðinni. Þann daginn heimsóttum við líka innflytjendasafnið á Ellis Island, og gengum svo upp að Ground Zero og litum á Wall Street. Um kvöldið borðuðum við á írskum pöbb í Bronx, þar sem Pablo heillaðist af þjónustustelpunni, en íbúðin okkar var í hverfi þar sem bjuggu fyrst og fremst Írar.

Næstu daga heimsóttum við öll helstu kennileitin, versluðum, fórum á Broadway-sýningu og borðuðum á ýmsum veitingastöðum. Ég keypti mér eitt og annað til að vera viss um að geta seinna sagt “Já ég keypti þetta í New York”. Annars verslaði ég ekki mikið því ég sá fljótt að New York er dýrari en Minneapolis, auk þess sem allur fatnaður í Minnesota er tax-free, ólíkt New York.
Eins og svo oft þegar maður heimsækir skemmtilegar borgir, þá naut ég þess mest af öllu bara að ganga um göturnar og vera hluti af mannlífinu. Ég gæti vel hugsað mér að prófa að búa í þessari borg einhvern daginn, New York er einn skemmtilegasti og svalasti staður sem ég hef heimsótt.

Myndasíðan hefur nú verið uppfærð, bæði með nokkrum myndum frá vikunni fyrir vorhlé, auk albúms frá New York ferðinni sjálfri.

Engin ummæli: