Vandræðaleeeegt!
Rétt áðan tók ég eftir því að fyrir neðan linkalistann minn (og nýja æsispennandi veðurfídusinn sem ég bætti við um daginn) þar sem er listi yfir nýjustu færslurnar hjá mér, var innsláttavilla. Þar stóð "Undanfarnar færlsur" í stað færslur. Nú eru örugglega liðin tvö ár síðan ég breytti útlitinu á síðunni síðast og hefur þetta því væntanlega staðið þarna jafnlengi. Hefur enginn tekið eftir þessu? Ekki ég allavega.
Annars held ég að vorið sé komið fyrir víst hérna í Minnesota. Þessa vikuna hefur verið um 15° hiti og hlý gola. Reyndar var veðrið svona um daginn líka og daginn eftir var snjóstormur, svo maður veit aldrei. Misserið er hálfnað, sem er skuggalegt. Tíminn líður óskaplega hratt og ég harma það en fagna því um leið. Annars vegar hlakka ég mikið til að hitta Önna og fara til Californiu, en á hinn bóginn finnst mér leiðinlegt hvað þetta litla ævintýri mitt stendur stutt yfir. Ég hef enga sérstaka löngun til að snúa aftur til hversdagslífsins heima. Maður hefði kannski haldið að þetta tímabil myndi svala þorstanum til ferðalaga um stund, en þvert á móti hefur það kveikt löngun til frekari tilraunastarfsemi í útlöndum. Verst að allt skuli þurfa að kosta pening.
Ég vona að mér takist að halda sambandi við einhverja af þessum krökkum sem ég hef kynnst hérna. Ég veit að meirihluta þeirra á ég aldrei eftir að sjá eða heyra aftur þegar ég fer, en ég ætla að reyna að vinna í því að viðhalda vináttu við þessi helstu.
Annars ætla ég að hætta að hugsa um að þessu ljúki öllu á endanum og einbeita mér frekar að því að njóta þess á meðan það varir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli