Hic Habitat Felicitas
Einu sinni þegar ég var lítil fór ég í tíma í Heimspekiskólanum á afmælisdaginn minn og allir sungu afmælissönginn fyrir mig. Ég hef líklega verið 6 ára og ég man að ég fór svo hjá mér að ég fór að reima skóna mína á meðan sungið var.
Í þetta skiptið var afmælið mitt ekkert vandræðalegt heldur bara ánægjulegt. Þetta var þriðja afmælið í röð í litla hópnum okkar hérna, áður hafa Elise og Pablo átt afmæli, og venjan er að byrja fögnuðinn á miðnætti kvöldið áður. Sami hátturinn var hafður á núna, ég bauð til Ben& Jerry ísveislu og opnaði tvær afmælisgjafir. Ég fékk nefnilega pakka að heiman þann þriðja, frá Hönnu Rut og Ásdísi Eir og það var afskaplega gaman. Upp úr pakkanum kom íslenskt nammi; kúlusúkk og rjómakúlur, ásamt doppóttum bol og silkiklút. Þegar ég opnaði pakkann hváði Elise
“My gosh, your friends know you really well!”
Enda hafði ég nýlega sagt henni hvað ég væri hrifin af “polkadots.” Íslenska nammið fékk misjafnar undirtektir. Fólki fannst rjómakúlurnar ágætar en kúlusúkkið var ekki vinsælt. Hérna borðar fólk almennt ekki lakkrís, hvað þá súkkulaðihúðaðan lakkrís, og þetta bragð var því voðalega framandi fyrir þau. Ég hef því setið ein að kúlusúkkinu og borðaði einmitt allt of mikið af því í kvöld, svo nú er mér illt í maganum. Takk samt stelpur!
Ég fékk svo útskrifað afmælikort frá vinum mínum hérna, og gjafakort í Victoria’s Secret fyrir 50$. Þau þekkja mig ágætlega hérna líka held ég.
Daginn eftir, á sjálfan afmælisdaginn, þurfti ég reyndar að sitja í tíma um kvöldið. Að honum loknum fórum við samt stelpurnar á Grand Avenue og fengum okkur kökur og nokkra cosmopolitan og töluðum um stelpulega hluti á stelpulegan hátt, sem er alltaf skemmtilegt. Nú, svo fékk ég líka kort frá Snæbirni og Elínu Lóu, sent frá Brasilíu og þótti mér það góð tímasetning að það skyldi skila sér akkúrat á afmælisdaginn minn. Síðast en ekki síst var veðrið líka frábært, í gær og dag hefur verið á bilinu 17-19 ° hiti og má því með sanni segja að vorið sé komið.
Þetta var því mjög skemmtilegt í alla staði og ég lagðist hamingjusöm til svefns.
Takk öllsömul fyrir afmæliskveðjurnar, mér þykir vænt um ykkur öll.
Myndir frá síðustu viku eru komnar inn á myndasíðuna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli