sunnudagur, apríl 30, 2006

Global Jam

Í gærkvöldi var svokallað Global Jam hérna á campus, þar sem boðið var upp á veitingar, "tísku"sýningu með þjóðbúningum víða að úr heiminum og ýmis skemmtiatiði, þjóðdansar ofl. Sem sagt óskaplega fordómalaust og fallegt, allir vinir. Jæja ég var reyndar óþarflega neikvæð fyrir þessu fyrirfram, mér fannst þetta hljóma svo hallærislegt eitthvað, en svo reyndist þetta bara vera skemmtilegt.
Meðal skemmtiatriða var hálfnakinn maður frá Ghana, sem spilaði æsifengið á stórar afrískar trommur og dansaði með prik um sviðið. Þegar hann hafði lokið sér af útdeildi kynnirinn, sem var Pravesh kunningi minn frá Máritíus, verðlaunum eins og gert var nokkrum sinnum milli atriða. Í þetta skipti sagði hann að verðlaunin hlyti hver sá sem talaði fleiri en 4 tungumál. Þetta fór reyndar alveg fram hjá mér þar sem ég var ekki að hlusta, en áður en ég vissi hvað var að gerast var Pablo búinn að toga mig upp á svið segjandi að ég kynni 6 tungumál. Ég tek það alltaf fram að þótt ég hafi lært 6 tungumál þá tali ég þau ekki reiprennandi, en hvað um það. Til að sýna fram á þetta var ég beðin að segja eitthvað á öllum tungumálum áður en ég fengi verðlaunin (sem voru nauðaómerkilegur órói.)

Stuttu eftir að ég var sest niður aftur var pikkað í öxlina á mér. Ég sneri mér við og þar stóð trommuleikarinn frá Ghana, ennþá hálfnakinn og kófsveittur eftir dansinn, og segir

"Snakker du dansk?"

Kom þá í ljós að hann hafði búið flutt frá Ghana til Vesterbro í Köben og búið þar lengi áður en hann kom til Bandaríkjanna fyrir 5 árum með kærustunni sinni. Þarna fékk ég því óvænt tækifæri til að æfa dönskuna mína aðeins, og við spjölluðum í góða stund. Svo bað hann mig reyndar um símanúmerið mitt og ég lét hann fá herbergisnúmerið, en ég veit nú ekki hvort ég stefni á frekari samskipti við hann.

Engin ummæli: