South Dakota II
Mér fannst áhugavert að sjá breytinguna á milli fylkjanna. Reyndar hef ég ekki mikla reynslu af menningu Minnesota utan borgarlífsins, sem er kannski ekki sambærilegt við dreifbýli SD, en mér fannst ég nú samt sjá breytingu á fólkinu og umhverfinu, og svo náttúrulega landslaginu. Framan af var landslagið ekki merkilegt; endalausar sléttur og sveitabýli. Þá var þeim mun skemmtilegra að fylgjast með skiltunum sem stóðu með fram veginum og auglýstu ótrúlegustu hluti. Þegar komið var yfir fylkjamærin fórum við líka að verða varar við meiri trúrækni og íhaldssemi, eins og sjá má á nokkrum myndum hjá mér.
Ég hef heyrt að það sé lífsreynsla að keyra frá Nevada yfir til Utah, því að þar verði maður mjög var við menningarmuninn milli fylkjanna. Nevada er eina fylki Bandaríkjanna þar sem vændi er löglegt, og er það víst auglýst alls staðar þar sem hægt er að auglýsa. Utah er hinsvegar heimafylki mormónanna og er öllu íhaldssamara, og er munurinn víst merkjanlegur á skiltunum um leið og keyrt er yfir fylkjamærin.
Fyrir utan Lauru Ingalls bækurnar þá hafði ég alla mína vitneskju um þetta svæði úr Andrésblöðum og Lukku Lákabókum. South Dakota er að mörgu leyti stereótýpískt fyrir villta vestrið, þótt vagga þess hafi kannski legið aðeins vestar í Wyoming, Montana og Idaho held ég. South Dakota var samt heimili Villta tryllta Villa og Svölu Sjönu, sem eru villta vesturs selebrití samkvæmt mínum bókum. Ég fræddist um þau aftast í Lukku Láka, þar sem var alltaf lítill kafli með smá sögulegum upplýsingum um uppruna teiknimyndapersónanna.
Okkur tókst að sjá margt og skemmta okkur vel, eins og ætti að komast til skila á myndunum. Ég held það sé enginn tilviljun að Bandaríkin séu svona tengd við road trip í huga manns, það er ótrúlega skemmtilegt að keyra hérna um enda margt að sjá, bæði merkilegt og smávægilegt. Eiginlega er maður hálffatlaður hérna án bíls, ég sé það betur núna eftir að við fengum smá nasaþef af frelsinu sem fylgir bílnum. Ég hefði ekkert á móti því að ferðast víðar um Bandaríkin með þessum hætti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli